Bakstur, Ýmislegt

Hnetusmjörssmákökur

24. April, 2015
Tilbuid

Mér finnst hnetusmjör ólýsanlega gott og flest allt sem inniheldur hnetusmjör. Ég verð samt að passa mig að missa mig ekki í því og nota það því bara svona spari. Þessar hnetusmjörssmákökur hafa orðið til upp úr gamalli uppskrift sem ég átti. Á árum áður bakaði ég hana oft fyrir jólin, þá datt mér ekki í hug að baka smákökur í annan tíma. Tók þær úr smákökuboxinu á aðventunni og lagði þær á borð í kaffitímanum. Eftir kaffið setti ég þær næstum allar aftur í boxið. Alltaf var ég að reyna að fá fjölskylduna til að gæða sér á þeim. Það bara gekk ekki. Engin fyrir utan mig var hrifin af smákökunum, þannig að ég hætti að baka þær. Já, það er nú bara stundum þannig, ef fjölskyldan borðar ekki það sem gert er þá bara hættir maður að gera það. Í fjölda mörg ár leit ég ekki við uppskriftinni og nánast gleymdi henni. Fyrir nokkrum árum var ég að skoða gömlu uppskriftabókina mína og rak augun í þessa. Rifjaðist þá upp fyrir mér hversu góðar mér hafði fundist þær vera. Ég ákvað að endurnýja kynnin við þær og skella í eina hræru, en nú með því hráefni sem ég nota í dag. Nú kvað við annan tón hjá fjölskyldumeðlimum. Namm hvaða kökur eru þetta? Hefur þú ekki bakað þessar áður var spurt? Jú, jú en þá varst þú/þið  ekki hrifin af þeim. Þau trúðu því vart og féllu kylliflöt fyrir hnetusmjörssmákökunum.

Í fyrsta sinn sem ég bakaði hnetusmjörssmákökurnar rétt náði ég í eina eða kannski tvær.

Ég baka hnetusmörssmákökurnar töluvert oft. Mér finnst frábært að eiga þær í frysti og setja í nestisboxið þegar við förum í einhverja útivist. Eða bara stinga upp í  mig þegar mig langar í smá bita.

Það verður að segjast eins og er að smákökurnar er lang, lang bestar nýbakaðar með kaffi eða ískaldri mjólk. En auðvitað eru þær alltaf góðar.

Hnetusmjörs smákökur

Úr uppskriftinni fékk ég 23 kökur

Hitið ofninn í 180°C

Innihald

Innihald:

 • 1 bolli smjör.
  • Smjörið þarf að vera lint.
 • 1 bolli gróft hnetusmjör.
  • Ég nota lífrænt.
 • 1 bolli pálmasykur.
 • 2 stk.  egg.
 • 1 ½ bolli fínt spelt.
  • Ég nota lífrænt.
 • 100 g brytjað suðusúkkulaði
 • Innan úr einni vanillustöng.
 • ¼ tsk salt.

Aðferð:

 • Hrærið smjörinu, hnetusmjörinu og pálmasykrinum vel saman.
 • Bætið eggjunum út í og hrærið í ca 3 mínútur í viðbót.
 • Bætið vanillunni út í deigið.
 • Þá speltinu, suðusúkkulaðinu og saltinu.
  • Hrærið þar til allt hefur blandast vel saman.
 • Setjið með matskeið á bökunarplötu.
 • Bakið við 180°C í 10 mínútur.

A leid i ofninn

 

Tilbuid

Gott er að geyma kökurnar í ískáp eða frysti.

Njótið.

 

 

 

Athugasemdir

athugasemdir

You Might Also Like