Fiskur, Forréttir

Hörpudiskur í Feöy

27. February, 2015
Tilbuin

Það var ekki ég sem eldaði þennar góða hörpudisk rétt. Birgitta tengdadóttir mín sá um það í eldhúsFeoyinu hjá sér í Feöy í Noregi. Eina sem ég gerði var að  fylgjast með og mynda allt ferlið. Þegar allt var tilbúið fékk ég að gæða mér á honum ásamt fleiri gestum.

 

Á valentínusardaginn lögðum við Rúnar full tilhlökkunar land undir fót og héldum til Noregs. Erindið var ekki að halda sérstaklega upp á daginn, heldur að heimsækja soninn Jóa, tengdadótturina Birgittu og barnabörnin okkar Grétar Rafn og Sæsól Ylfu. Fjölskyldan hefur búið þar í nokkur ár á lítilli fallegri eyju sem heitir Feöy. Jói er skiptstjóri á  farþegaferju sem siglir á milli eyjunnar og Haugasunds nokkrum sinnum á dag, auk þess er hann kafari, Birgitta rekur hundasnyrtistofu og börnin er í grunnskóla.

 

 

 

 

 

Þegar von er á gestum þarf Jói að fara á litla bátnum sínum honum Dolla til að ferja þá yfir á eyjuna.

IMG_1812[1]

Jói og Birgitta ákváðu að hafa hörpudisk í kvöldmatinn eða eins og Norðmenn segja kamskjel. Ekki var hlaupið í næstu búð og keypt í matinn. Ó nei! Snemma morguns fór Jói  í kafarabúninginn, skellti sér í sjóinn og tíndi fullt net af hörpudisk.

Harpa i neti Þegar heim kom hreinsaði hann skelina ásamt Rúnari og gerðu þeir hana klára til eldunar. Ég gerði ekki neitt annað en að fylgjast með og smakka einn og einn bita af hörpunni, sem er nú alveg fullt starf verð ég að segja. Harpan var ólýsanlega góð. Jói hafði nú orð á því að yfirleitt þegar kamskjel væri á boðstólnum hjá þeim borðuðu þau hana nánast um leið og hann kæmi úr kafi. En að þessu sinni væri það ekki hægt þar sem blessað veðrið væri að versna.

Runar og Joi

Birgitta kom heim úr vinnunni hófst handa við eldamennskuna. Ég var svo dolfallinn yfir þessu öllu að ég horfði bara á og tók myndir.

Birgitta

Með þessari færslu er ég ekki að hvetja fólk til að kafa og tína hörpudisk, enda veit ég ekki hvort það sé gert við Ísland. En fyrir okkur sem ekki köfum getum við keypt hann í stórmarkaði og útbúið þennan góða rétt.

  Uppskrift

Hörpudiskur/kampskjel í Feöy

 Innihald:

 • 16 stk. meðal stórir hörpudiskar.
 • 2 stk. rauðlaukur.
 • 2 stk. hvítlauks rif.
 • 2 msk. olía.
 • 1 bolli hvítvín.
  • Restina úr flöskunni drekkið þið bara með réttinum 😉
 • ¼ l rjómi.
 • Rifinn ostur.
 • Rifinn parmesan ostur.
 • Salt og pipar.
 • 2 – 3 stk. vorlaukur .

Aðferð:

 • Skerið rauðlaukinn og hvítlaukinn frekar fínt niður.
 • Setjið olíu á pönnu.
  • Stillið á lágan hita.
 • Bætið laukunum út í og glærið.
 • Hellið hvítvíninu á pönnuna og látið malla þar til það hefur að mestu soðið niður.
  • Á meðan skerið þið hvern hörpudisk niður í ca. fjóra bita.
 • Þegar laukurinn er tilbúinn skiptið þið honum niður í fjögur form.
 • Raðið hörpudisknum í formin.
 • Saltið og piprið
 • Hellið rjómanum yfir hvert form.
  • Hörpudiskurinn stendur upp úr til hálfs.
 • Stráið rifna ostinum yfir.
 • Og  rifna parmesanostinum.
 • Stráið að lokum vorlauknum yfir.
 • Bakað við 200°C í 5 – 10 mínútur.
  • Birgitta er líka að vinna á hóteli, kokkarnir þar mæla með 5 mínútum.

 

Hörpudiskurinn var bakaður og borinn fram í skelinni. Ég fékk nokkrar skeljar með mér heim og mun örugglega nota þær við fyrsta tækifæri.

Þið verðið örugglega ekki svikin af þessum rétti.Tilbuin

Njótið.

 

Athugasemdir

athugasemdir

You Might Also Like