Grænmetisréttir

Lasagna – grænmeti í gegn

8. May, 2015
DSC_0304

Ég bara verð að deila þessu með ykkur. Við hjónin erum að taka þátt í ótrúlega spennandi verkefni hjá heimilislækninum okkar. Þegar hann stakk upp á þessu og sagði okkur hvert verkefnið væri, vorum við bæði meira en til í að taka þátt. Sérstaklega þar sem það snýst um heilsusamlegt mataræði. Verkefnið gengur út á að taka ákveðna fæðuflokka út úr fæðunni, já haldið ykkur í þrjár vikur. Það sem tekið var út er: Glúten, sykur, mjólkurvörur, unnar matvörur, egg, koffín og áfengi. Með hliðsjón af matnum sem við borðum venjulega fannst okkur þetta ekki neitt stórmál. Bara spennandi. Áður en haldið var af stað lásum við bækling sem heimilislæknirinn lét okkur fá, ásamt ýmsum greinum sem við fundum á netinu og bókina Hreint mataræði eftir lækninn Alejandro Junger.

Nú gæti einhver spurt en hjálpi mér hvað megið þið borða? Það er nú ýmislegt. Grænmeti, ávexti, fræ, hnetur, baunir, olíur, lambakjöt, lífrænan kjúkling og fisk. Við tókum okkur viku í undirbúning. Hann var nú ekki eins hjá okkur hjónum. Ég trappaði mig niður alla vikuna, en maðurinn minn undirbjó sig heldur betur á annan hátt. Hann t.d. drakk eins mikið kaffi og hann komst yfir og borðaði eitt og annað í „síðasta” sinn. Stóri dagurinn rann upp. Hann leið bara eins og hver annar dagur hjá mér. Ég saknaði einskis. Ekki einu sinni kaffisins. Það verður að segja eins og er að þetta gekk nú ekki alveg svona smurt hjá eiginmanninum. Áður en vinnudegi lauk kom hann heim sárkvalinn í höfðinu. Fráhvörfin voru heldur mikil í nokkra daga hjá honum. En hann komst yfir þau og tók gleði sína á ný.

Nú erum við búin að vera í verkefninu í 12 góða daga. Mér finnst hver dagur eins og ævintýri. Ég finn mikinn mun á hversu úthaldsbetri ég er og sef betur. Maðurinn minn var t.d. með exem í andlitinu sem er algjörlega horfið. Mér finnst þetta ótrúlega jákvætt og hlakka til að halda áfram.

Uppskriftirnar munu verða litaðar af þessu mataræði næstu vikur. Kjúklingauppskriftin sem ég setti inn síðast fellur algjörlega undir þetta mataræði.

Þegar beðið var um lasagna í matinn fór ég að skoða hvað ég gæti notað fyrir plöturnar og bechamelsósuna. Kúrbítur og kasjúhnetusósa varð fyrir valinu. Þetta var útkoman og vorum við  ótrúlega sátt með hana.

Uppskriftin er frekar stór og dugði fyrir þrjá í tvær máltíðir + nesti í vinnuna.

Uppskrift

Þessi grænmetissósa er fengin úr einni af mínum uppáhalds matreiðslubókum Nýir Heilsuréttir fjölskyldunnar eftir Berglindi Sigmarsdóttur. Eins og gengur er hún ekki nákvæmlega eins og í bókinni.

Grænmetissósa

Sósan tekur lengsta tímann, þess vegna finnst mér gott að uppskriftin er stór og dugar tvisvar sinnum í þennan rétt. Ég set alltaf restina af sósunni í poka og frysti. Næst þegar lasanga á að vera í matinn tekur enga stund að útbúa það þar sem sósan er tilbúin. 

DSC_0304

Innihald:

 • 4 msk ólívuolía.
 • 1 stk laukur.
 • 2 msk paprikuduft.
 • 2 stk stórar gulrætur.
 • Brokkolí.
  • Lítill haus.
 • 1 stk rauð paprika.
 • 1 stk sæt kartafla.
 • 2 dl rauðar linsubaunir.
 • 1/2 box heilsutómatar.
 • 100 g lífrænn tómatkrafur.
 • 2 msk lífrænn grænmetiskraftur.
 • Saltflögur og pipar
 • 1 l vatn.

DSC_0315

Aðferð:

Ég elda alltaf allt við vægan hita. Hjá mér eru sex stillingar á eldavélinni og ég stilli á 2.

 • Skerið fyrst niður lauk og hvítlauk.
  • Takið frá.
 • Skerið næst allt grænmetið niður.
  • Hafið bitana ekki of stóra.
 • Látið olíuna í pott og glærið laukinn og hvítlaukinn.
 • Bætið tómatkraftinum saman við.
 • Setjið restina af grænmetinu og allt kryddið í pottin.
  • Blandið vel saman.
  • Látið malla í 3 – 4 mínútur.
  • Hrærið í pottinum.
 • Bætið nú vatninu og linsunum saman við.
  • Blandið öllu innihaldinu vel saman.
 • Setjið lokið á pottinn og látið malla í 30 – 40 mín.
  • Eða þar til kartöflurnar eru soðnar.
  • Hrærið í öðru hverju.
 • Þegar grænmetið er tilbúið látið þá rjúka aðeins úr því.
 • Maukið sósuna annað hvort með töfrasprota eða í matvinnsluvél..
  • Ef notuð er matvinnsluvél þarf að mauka í nokkrum áföngum.

DSC_0347

Fylling

DSC_0334

Innihald:

 • ½ poki lífrænt spínat.
 • Lítill haus brokkolí.
 • ¼ úr boxi af sveppum.
 • 1 stk rauð paprika

Aðferð:

 • Skolið spínatið og skerið niður sveppina, paprikuna og brokkolíið.

 

 Kasjúhnetusósa

Það kom mér skemmtilega á óvart hversu vel sósan  passaði með. Held bara að þessi sé komin til að vera.

DSC_0316

Innihald:

 • 2 bollar lífrænar kasjúhnetur.
 • 1 – 2 kúfuð msk lífrænn grænmetiskraftur.
 • 1 kúfuð msk næringarger.
  • Fæst í heilsubúðum og heilsuhillum stórmarkaða.
 • 1 msk creolakrydd.
  • Notaði það til að dreyfa yfir lasagnað.
  • Aðalega til skreytingar.
 • 1 bolli kalt vatn.

Aðferð:

 • Allt sett í matvinnsluvél og unnið vel saman.

DSC_0342

Ég hvet ykkur sem ekki þekkja næringarger að lesa ykkur til um það á netinu.

Lasagnaplötur

Þó svo að hægt sé að fá glútenlausar lasagnaplötur ákvað ég að nota kúrbít. Hann er líka kominn til að vera hjá mér  a.m.k. í grænmetislasagna.

DSC_0332

Innihald:

 • 1 ½ stk kúrbítur.

Aðferð:

 • Skolið kúrbítinn vel.
 • Skerið endana af.
 • Skerið hann eftir endilöngu með ostaskerara.

Þá er komið að því að raða saman í eldfast form. Formið mitt er 25 x 32 cm.

DSC_0365

 1. Kúrbítslengjunum raðað í botninn á forminu.
 2. Grænmetissósunni dreift jafnt yfir.
  1. Ég nota 2½ ausu.
 3. Ferska grænmetinu dreift jafnt yfir sósuna.
 4. Aftur kúrbítslengjur.
 5. Kasjuhnetusósunni dreift jafnt yfir.
 6. Aftur grænmetissósa.
 7. Og ferskt grænmeti.
 8. Kúrbítslengjur.
 9. Að síðustu kasjúhnetusósa.
  1. Dreifið t.d. creolakryddi eða öðru grænu kryddi yfir.
   1. Þá lítur toppurinn svo miklu betur út.
 10. Bakið við 200°C í 40 – 45 mínútur.
 11. Þegar lasagnað er tilbúið skvettið smá ólívuolíu yfir.

DSC_0372

Njótið.

Athugasemdir

athugasemdir

You Might Also Like