Fiskur

Ofnbakaðir þorskhnakkar  með brokkolígrjónum

10. October, 2015
DSC_0457

Ég tek stundum svona ákveðin uppskriftartímabil í lífi mínu. Elda og elda í nokkrar vikur alltaf sömu segjum fjórtán réttina. Þá er bara eins og þeir séu það eina sem mér detti í hug að elda og ekkert annað kemst að. Eins og ég hafi aldrei kunnað neitt annað. Um daginn var ég að renna í gegnum uppskritirnar mínar í tölvunni. En í tölvuna komast aðeins þær uppskriftir sem ég nota mikið eða notaði. Rek ég þá ekki augun í fyrirsögnina HÆTTULEGA GÓÐUR FISKRÉTTUR. Rifjast þá upp fyrir mér að þennan rétt hafði ég eldað töluvert, hugsanlega allt of oft, fyrir nokkrum árum. Svo var bara eins og hann hafði fallið í gleymskunnar dá. Ekki af því að við fjölskyldan höfðum fengið leið á honum, það höfðu bara aðrir réttir fengið plássið hans. Með það sama endurnýjaði ég þessi fyrrum góðu kynni við þann hættulega og við smullum enn á ný saman. Það sem meira er að á tveimur vikum er ég búin að elda hann tvisvar. Okkur finnst hann enn þessi HÆTTULEGA góði.

Ofnbakaðir þorskhnakkar

Laukur, sellerí, sólþurrkaðir tómatar og kókosmjólk.

Stillið ofninn á 200°C

DSC_0412

DSC_0421

Innihald:

 • 800 g. þorskhnakki.
 • 1 dl. sólþurrkaðir tómatar.
 • 3 msk. olía.
 • 2 stk. laukur.
 • 3 stk. sellerístilkar.
 • 1 msk. oregano.
 • 1 msk. timian.
 • 1 msk. hunang.
  • Ég nota lífrænt akasíu hunang
 • Salt og pipar eftir smekk.
 • 1 dós  kókosmjólk.
  • Ég nota lífræna.

 

Aðferð:

DSC_0427

 • Skerið laukinn, selleríið og sólþurrkuðu tómatana  niður í þunnar sneiðar.
 • Setjið á pönnu ásamt olíunni.
 • Látið malla við lágan hita í um það bil tíu mínútur.
  • Þar til laukurinn verður glær.
   • Hreyfið til öðru hverju.
 • Blandið kryddinu saman við og látið malla áfram í tvær til þrjár mínútur.
 • Slökkvið undir hellunni og blandið kókosmjólkinni saman við.
 • Skerið þorskhnakkana í hæfilega bita.
 • Raðið þeim í eldfast form, saltið og piprið.
 • Hellið sósunni yfir og bakið við 200°C í 20 – 25 mínútur.
  • Ég vil hafa fiskinn glæran í miðjunni og baka hann því aðeins í 18 – 20 mín.

DSC_0430

 

DSC_0447

Ýmist ber ég réttinn fram með kínóa eða hýðishrísgrjónum, salati, blómkálsgrjónum eða brakandi ferskum brokkolígrjónum.

Brokkolígrjón

Útbúin líkt og blómkálsgrjónin 

DSC_0434

Innihald:

 • 1 stk. brokkolí haus.
 • Ólívuolía.

Aðferð:

Ekki láta of mikið brokkolí í matvinnsluvélina í einu. 

 • Skerið brokkolíblómin af stilkinum.
 • Setjið um það bil helminginn af brokkolíinu í matvinnsluvélina og látið hana vinna í 20 sek.
  • Ég tel upp að tuttugu í huganum 😉
 • Hellið grjónunum í skál.
 • Blandið olíunni vel  saman við.

DSC_0437

DSC_0457

Njótið.

 

Athugasemdir

athugasemdir

You Might Also Like