Fiskur, Grænmetisréttir, Ýmislegt

Ofnbakaðir þorskhnakkar með heimagerðu tómatpestói og volgu kartöflusalati

28. March, 2015
Thorskhnakkar med pesto

skilti

Bíddu nú við, hvað er í gangi hér? Er þetta ekki matarblogg? Af hverju er þá verið að vísa í skó? Satt best að segja veit ég ekki alveg hverju á að svara. En það getur verið eitthvað á þessa leið. Þegar ég var að hugsa um þessa færslu, kom þetta skilti, sem hangir uppi á vegg á ganginum hjá okkur upp í huga mér. Skór og fiskur? Skítið ekki satt? Fyrir nákvæmlega þremur mánuðum byrjaði ég á þessu matarbloggi. Þegar ég fór að hugsa um það og þessa fiskuppskrift og hinar sex fiskuppskriftirnar sem ég hef þegar látið inn, fannst mér þetta bara smellpassa. Í staðinn fyrir skó gæti staðið fiskur. Enn þá gæti einhver sagt: Ég skil ekki samhengið? Það er alltaf verið að hvetja okkur til að borða meiri fisk. Við viljum flest hafa fjölbreytni í mat. Þess vegna getur verið gott að eiga og prófa margskonar uppskriftir. Síðan bætist alltaf ein og ein inn hjá okkur sem verður uppáhalds.

Mér finnst maður alltaf geta bjargað sér með góðum fiski. Hvort sem það er hversdags eða spari. Einn af kostum þess að elda fisk er að hann tekur stuttan tíma í eldun og auðvelt er að útbúa fullkominn veislumat úr honum.

Ég hef kynnst því úr mötuneytinu í skólanum sem ég vinn í, að yngri börnin vilja helst hvítan fisk og nánast öllum finnst hann mjög góður. Því er upplagt að sleppa pestóinu á bita barnanna. 

Uppskriftir

Ofnbakaðir þorskhnakkar með heimagerðu tómatpestó

Stillið ofninn á 200°C

Thorskur a leid o ofninn

Innihald:

 • Þorskhnakkar.
  • Ég miða við rúmlega 200 g á mann.
 • Heimatilbúna pestóið.
  • Uppskrift hér að neðan.

Thorskhnakkar med pesto

Aðferð:

 • Skerið þorskhnakkana niður í hæfilega bita.
 • Raðið í eldfast form.
 • Smyrjið pestóinu á hvert stykki.
 • Bakið í 18 – 20 mínútur.
  • Ég baka fiskinn í 18 mín. þar sem ég vil ekki hafa hann gegnum eldaðann.

 

Pestó úr sólþurrkuðum tómötum

Nota verður matvinnsluvél við pestógerðina.

Pesto

Innihald:

 • 1 bolli sólþurrkaðir tómatar.
 • 4 stk hvítlauksrif.
 • 3 msk parmesan.
  • Raspaður.
 • 3 msk kasjúhnetur.
 • Olía eftir þörfum.
 • Saltflögur og nýmalaður pipar.

Pesto2

Aðferð:

 • Setjið allt hráefnið í matvinnsluvélina nema ólífuólíuna.
  • Byrjið að mauka.
 • Bætið olíunni smátt og smátt út í og maukið um leið.
  • Magnið af olíunni fer eftir því hversu þykkt þið viljið hafa pestóið.

Smekksatriði er hversu gróft fólk vill hafa pestóið.  Mér finnst gott að hafa hneturnar svolítið grófar.

Volgt kartöflusaltat

Gott með þessum þorskhnökkum og öllu mögulegu.

Með því að útbúa salatið úr volgum kartöflum smýgur kryddið svo skemmtilega inn í þær. Ef þið ætlið að útbúa kartöflusalatið úr kartöflum sem þig eigið soðnar inni í ískáp, þá endilega hitið þær upp.

                                  Tek það þó fram að kartöflusalatið er líka mjög gott daginn eftir.

Hraefni i kartoflusalat

Innihald:

 • ½ kg kartöflur.
 • ½ krukka sólþurrkaðir tómatar.
 • ½ krukka fetaostur.
 • 10 stk steinlausar ólívur.
 • 1 stk rauðlaukur.
 • 2 stk hvítlauksrif.
 • Saltflögur og pipar.

Mér finnst mjög gott að hafa vel af ólívuolíu og bæti salti út í eftir tilfinningu og smekk. Byrjið t.d. á 2 msk.

Kartoflusalat tilbuid

Aðferð:

 • Sjóðið kartöflurnar.
 • Skerið þær volgar niður í báta.
 • Setjið í skál.
 • Fínsaxið rauðlaukinn, bætið út í.
 • Fínsaxið hvítlaukinn, bætið út í.
 • Skerið niður sólþurrkuðu tómatana, bætið út í.
  • Notið 3 msk af olíunni.
 • Bætið fetaostinum við.
  • Látið aðeins af olíunni fylgja.
 • Saltið og piprið.
  • Ég salta frekar mikið.

Anna Fjóla Gísladóttir ljósmyndari tók myndirnar fyrir mig.

Njótið.

Athugasemdir

athugasemdir

You Might Also Like