Þegar ég spyr Rúnar manninn minn hvað við ættum að hafa í matinn, þykist hann hugsa sig vel og vandlega um. Eftir smá umhugsun segir hann síðan með ákveðnum virðingartón, ættum við kannski að hafa saaaaalat. Ég læt eins og ég hafi aldrei heyrt þessa uppástungu fyrr og svara því játandi. Enda er ég líka mjög hrifin af salötum.
Salat finnst mér ótrúlega þægilegur og fallegur matur. Mér finnst maður nánast alltaf geta gripið til þess bæði hversdags og spari. Eins og í öðru er ekkert heilagt í samsetningu þess. Þar sem sumarið er farið að banka á dyrnar hjá okkur fannst mér tilvalið að hafa sumarlegt sólarsalat í matinn. Og ef sumarið er eitthvað að stríða okkur, horfið þá bara á litadýrðina á salatdiskinum, þá er það komið 🙂
Ég set uppskriftina upp í nokkrum skrefum hér að neðan. Þegar ég útbý salatið spari finnst mér ótrúlega fallegt að setja það á disk fyrir hvern og einn. Oftast útbý ég það þó í stóra fallega skál þar sem hver og einn skammtar sér á disk.
Uppskrift
Áætlað fyrir fjóra fullorðna.
Innihald í salat:
- 1 poki veislusalat.
- Ég vel það vegna þess að það er bæði fallegt og gott.
- 1 lúka bláber.
- ¼ kantalópu melóna.
- 2 – 4 stk. fíkjur.
- 3 stk. vorlaukar.
- 10 stk. jarðarber.
- ½ box radísuspírur.
- 1 lúka pistasíuhnetur.
Grillað lambafile:
Innihald:
- 2 stk lambafile.
- Lakkríssalt.
Aðferð:
- Kryddið kjötið með lakkríssaltinu.
- Mér finnst mjög gott að hafa vel af því.
- Grillið kjötið í 5 mín. á puruhliðinni.
- Snúið og grillið í 5 – 7 mín.
- Fer eftir þykkt bitanna og smekk.
Piparrótardressing á salatið:
Innihald:
- ½ dl góð ólívuolía.
- 2 msk. balsamik edik.
- 2 msk. piparrót.
Aðferð:
- Rífið niður piparrótina.
- Blandið öllu saman og hrærið.
Loka skrefið
Skolið allt grænmetið og ávextina vel.
- Fyrst byrja ég á að grilla kjötið.
- Á meðan það er að kólna brytja ég niður ávextina og grænmetið.
- Set salatið í skál.
- Dreyfi ávöxtunum og grænmetinu yfir.
- Blanda lítilega saman.
- Sker kjötið niður í fallegar sneiðar.
- Raða því ofan á salatið.
- Piparrótardressing yfir.
- Síðast dreyfi ég pístasíuhnetum og spírunum yfir.
Ferskt og gott sítrónuvatn
Kannan inniheldur frísklegan og sumarlegan drykk. Leyndarmálið á bak við hann er 1 stk frosin lífræn sítróna og sódavatn. Trúið mér það gerist ekki frísklegra.
Í frystinum á ég alltaf niðurskorna frosna sítrónu í poka til að nota sem klaka í sódavatnið.
Anna Fjóla Gísladóttir ljósmyndari vinkona mín tók myndirnar fyrir mig.
Njótið.