Um daginn átti eiginmaðurinn afmæli. Ég hef nú áður minnst á að hann er með glútenóþol. Í tilefni dagsins var blásið til kaffisamsætis. Og þar sem það var glútengaurinn sem átti afmæli ákváðum við hjónin að hafa allt meðlætið glútenlaust. Ég bað eiginmanninn að vera ekkert að hafa orð á því að hitt eða þetta væri glútenlaust, þar sem ég hafði áður tekið eftir að það hafði fælingarmátt á veitingarnar. Nokkrum dögum fyrir afmælið ákvað ég að gera tilraun með fyrrum uppáhalds súkkulaðitertuna mína, já hún var áður í algjöru uppáhaldi, og breyta henni í glútenlausa. Tilraunin gekk 100% upp. Ég held bara að ég hafi sjaldan eða aldrei smakkað betri súkkulaðitertu. Hef þó smakkað þær æði margar, þar sem súkkulaðitertur eru í miklu uppáhaldi hjá mér.
Þá að afmælis kaffisamsætinu. Glútenlausa meðlætið var á borðum. Eins og við hjónin ákváðum fyrirfram var ekki minnst einu orði á að eitthvað væri glútenlaust. Ég fylgdist vel með viðbrögðum gestanna við veitingunum, allir virtust vera sáttir og hrósuðu því sem var á boðstólnum. Aftur á móti var ólýsanlegt að fylgjast með gestunun þegar þeir fengu sér fyrsta bitann af súkkulaðitertunni. Þeir lyngdu aftur augunum, litu á mig með matarást í augum og spurðu „hvaðan kemur þessi dásamlega terta og hvað er í henni?“
Glútenlaus súkkulaðiterta
- 200 gr. suðusúkkulaði.
- 200 gr. smjör.
- 4 stk. egg.
- 1 ½ dl. pálmasykur.
- Fæst í heilsuhillum stórverslanna og heilsubúðum.
- 1 ½ dl. möndlumjöl.
- Ég nota lífrænt, fæst í heilsubúðum.
- 1 tsk. vínsteinsduft.
- 1 tsk. xanthan gum.
- Er glúteinlaust náttúrulegt þykkingarefni.
- Fæst í heilsubúðum.
- Er glúteinlaust náttúrulegt þykkingarefni.
Aðferð:
- Byrjið á að bræða smjörið og suðusúkkulaðið yfir vatnsbaði.
- Þegar það er bráðið, þeytið þá eggin og pálmasykurinn vel saman.
- Tekur um það bil fimm mínútur.
- Hellið súkkulaðiblöndunni saman við eggin og pálmasykurinn.
- Þeytið á meðan.
- Slökkvið á hrærivélinni og blandið þurrefnunum VARLEGA saman við súkkulaði- og eggjahræruna.
- Mér finnst best að nota sleikju.
- Bakað í kringlóttu tertuformi við 200°C í 20 mín.

Byrjið á að bræða smjör og súkkulaði yfir vatnsbaði.

Þeytið egg og pálmasykur mjög vel saman.

Hellið súkkulaðiblöndunni út í á meðan vélin er í gangi.

Eggin, pálmasykurinn og súkkulaðið tilbúið.

Möndlumjölið, vínsteinsduftið og xanthan gum komið í skálina.

Blandið þurrefnunum varlega saman.

Hellið í form og bakið í 20 mínútur við 200°
Þegar tertan er fullbökuð er hún kæld og hjúpuð með súkkulaðihjúp og skreytt að vild.
Súkkulaðihjúpur
Innihald:
- 150 gr. suðusúkkulaði.
- 1 tsk. kókosolía.
- ½ dl. ristaðar kókosflögur.
Aðferð:
- Bræðið súkkulaðið og kókosolíuna saman yfir vatnsbaði.
- Pikkið í tertuna með hníf og hellið súkkulaðinu yfir.
- Dreifið kókosflögunum yfir tertuna.

Bræðið saman yfir vatnsbaði súkkulaði og kókosolíu.

Ristið kókosflögur á pönnu. Tekur ca eina til tvær mínútur.
Þegar verið er að hjúpa kökur finnst mér snilldarráð að klippa smjörpappírsörk í fjóra parta og leggja yfir tertudiskinn, tertan er látin á diskinn og hjúpuð. Þegar hjúpurinn er aðeins farin að stífna er pappírinn dreginn undan tertunni.
Snilldar ráð.
Tertan hjúpuð.

Tilbúin!
Mér finnst það nánast ómissandi að hafa þeyttan rjóma og jafnvel ber með tertunni.
Njótið.