Fiskur, Glútenlaust, Meðlæti

Möndluhjúpaðir þorskhnakkar bornir fram með hrísgrjónum og eplasalati

13. November, 2015
DSC_1116

Ég get bara ekki á mér setið að segja frá því hvað hefur verið að gerast hjá fjölskyldunni upp á síðkastið. Við hjónin vorum svo lánsöm að eignast barnabörn númer fjögur og fimm. Jafnframt eiga tvö af barnabörnunum okkar afmæli nú í nóvember, annað þeirra varð þrettán sem sé löggiltur táningur og hitt tveggja ára. Og það er ekki allt því það sjötta á að koma á afmælisdegi afa síns í febrúar. Hvílíkt ríkidæmi.  Já sú í miðjunni eignaðist agnarsmáa tvíburastráka 31. október. Á 75 ára afmælisdegi langömmu sinnar. Litlu snáðarnir voru nú heldur betur að flýta sér í heiminn. Við áttum ekki von á þeim fyrr en mánuði seinna. Þeir voru því fyrstu níu dagana í lífi sínu á vökudeildinni, þar sem var hugsað sérstaklega vel um þá. Held bara að þar vinni eingöngu englar í mannsmynd.  Amman og afinn voru þar töluvert mikið með mömmunni og litlu strákunum. Þeir stóðu sig ótrúlega vel á vökudeildinni, drukku eins og herforingjar og gerðu bara allt eftir bókinni. Já svona tala montnar ömmur.

Þessa níu daga var ekki mikið að gerast í eldhúsinu á Njálsgötunni. Mikið var um heimtökumat, sem tekinn var með upp á spítala og snæddur þar. Við hjónin erum ekki mikið í þessum svokallaða skyndibita en höfum nú þrætt alla helstu hollustustaðina í bænum. Sem eru því miður ekki mjög margir. Þrátt fyrir að hafa fengið ágætan mat vorum við heldur betur farin að sakna  matsins okkar.

Þegar heim var komið var fiskur  það eina sem nýbökuðu mömmunni, ömmunni og afanum langaði í. Og varð þessi réttur fyrir valinu. Tveggja ára barnabarnið var líka mjög hrifið af þessum fiski.

Steiktur fiskur í möndluhjúp

Þeir sem eru með glútenóþol geta að sjálfsögðu borðað steiktan  fisk í möndluhjúp.

Þetta magn dugði fyrir fimm fullorðna og eitt tveggja ára barn.

DSC_1096

Innihald:

  • 900 gr. þorskhnakki.
  • 2 – 3 dl. möndlur.
  • 3 stk.  egg.
  • ¼ – ½ tsk. chilliflögur.
    • Getur verið meira ef fólk vill hafa fiskinn mjög bragðmikinn.
  • 50 gr. smjör.
  • 3 msk. ólívuolía.
  • Flögualt.

Aðferð:

  • Skerið þorskhnakkann eftir endilöngu niður í þrjár lengjur og síðan í hæfilega bita.
    • Þetta eru svona fiskifingur.
  • Mixið möndlurnar í matvinnsluvél.
    • Mér finnst gott að hafa mixið frekar gróft.
  • Blandið chilliflögunum saman við.
  • Bræðið smjörið og olíuna saman á pönnu við vægan hita.
  • Brjótið eggin í skál og þeytið þau saman með gaffli.
  • Setjið möndlumixið í aðra skál.
    • Mér finnst gott að skipta möndlumixinu í tvennt, því þegar það er orðið blautt, er frekar erfitt að hjúpa fiskinn með því.
  • Veltið fiskinum fyrst upp úr egginu og síðan upp úr möndlumixinu.
  • Steikið við vægan hita í ca. 7 – 8 mínútur.
    • Ég steiki fiskinn alltaf lengur á fyrri hliðinni eða í ca 4 – 5 mínútur.
      • Snúið og klárið að steikja.

DSC_1106

Eitt sinn þegar ég  var að steikja fisk, hafði ég þeytt heldur mikið af eggjum og töluvert gekk af. Ég ætlaði að láta eggin gossa í vaskinn en Rúnar maðurinn minn stakk upp á því að við helltum restinni af eggjablöndunni út á fiskinn á pönnunni. Þetta fannst okkur súper gott og nú geri ég það all oft. Þá er þetta svona fiskur í eggjaköku.

Eplasalat

Ef ég væri aðeins yngri segði ég að þetta væri sjúklega gott salat. En þar sem ég er virðuleg kona á besta aldri, segi ég bara að það sé í miklu uppáhaldi.

Eplasalatið finnst mér passa með öllu mögulegu. Eins og nú með fiski, stundum hef ég það með lambakjöti eða heilsteiktum kjúkling og ef það er afgangur borða ég það jafnvel eitt og sér.

DSC_1072

Innihald:

  • 2 stk. rauð epli.
  • 6 stk. döðlur.
    • Ég nota lífrænar.
  • 1 dós hrein lífræn jógúrt.
  • ½ tsk. vanilluduft.
    • Ég nota lífrænt.
  • 1 msk. akasíu hunang.

Aðferð:

  • Skerið eplin niður í frekar smáa bita.
  • Skerið döðlurnar niður í þunnar sneiðar.
  • Hellið jógúrtinni í skál og blandið vanillunni og hunanginu vel saman.
  • Blandið eplunum og döðlunum saman við.

DSC_1081

Ef þið viljið kalda sósu með fiskinum, sem mínum manni finnst ómissandi er mjög gott að útbúa til dæmis kalda karrýsósu eins og þessa úr sýrðum rjóma.

Turmerik hrísgrjón

Með fiskinum hafði ég hrísgrjón með turmerik. Ég sýð grjónin eins og venjulega og bæti 1 – 2 tsk. turmerik saman við þau. Mér finnst grjónin verða fallegri og eins og við vitum er turmerikið svo holt.

DSC_1116

Njótið.

Athugasemdir

athugasemdir

You Might Also Like