Um daginn bauð systir mín til kaffisamsætis. Ég spurði hana hvort ég ætti að koma með eitthvað á kaffiborðið. Hún þáði það með þökkum en sagði jafnframt að það mætti hvorki innihalda, glúten, laktósa, hnetur eða fisk. Ef ég á að vera alveg hreinskilin setti þetta mig í pínu klípu í smá stund. Síðan sá ég að þetta væri enn eitt spennandi verkefnið að leysa. Mig langaði að allir veislugestir gætu áhyggjulausir borðað það sem ég kæmi með. Ég fór í rannsóknarleiðangur um kima netsins og fann ýmislegt áhugavert. En það sem stóð upp úr er í raun útfærsla út frá súkkulaðitertunni minni. Ég skipti bara út nokkrum já eða öllum hráefnum.
Í veisluna fór ég með tertuna, náði ekki að smakka hana áður. Krossaði fingur og vonaði að hún bragðaðis vel. Ég var svo sem ekkert að ganga á fólk og spyrja en tertan kláraðist upp til agna.
Bróðir minn og mágkona komu í seinna lagi í veisluna og misstu því af tertunni. Nokkrum dögum seinna ákvað ég að baka tertuna aftur. Bróðir minn hringir, hefur fundið á sér að til væri terta á Njálsgötunni og spyr hvort ég sé til í kaffisopa með þeim hjónum. Ég stakk upp á að þau kæmu bara til mín, þar sem ég hefði verið að enda við að baka þessa fínu tertu. Þegar hann heyrði upptalninguna á því hvað væri ekki í tertunni, sagði hann að þetta hljómaði það illa að hann væri til í að koma og smakka á henni í vísindaskyni. Þau komu og fengu bæði tertu og gott kaffi. Dómurinn var upp kveðinn. Bróðir minn er mjög hreinskilinn og er ekkert að hlífa systur sinni. Sagði hann að þótt honum hefði fundist innihaldslýsingin hljóma illa væri tertan ótrúlega góð. Mágkona mín kom aftur á móti með bragðlýsingu. Ekki of beisk, þrátt fyrir mikið magn af 70% súkkulaði og ekki of sæt. Bara góð. Hún hlakkaði til að baka þessa tertu fyrir sitt fólk.
Eins og ég hef áður sagt er glútenið og eða laktósinn til ama fyrir nokkra fjölskyldumeðlimi. Eiginmanninn, þá elstu og í miðjunni og yngsta barnabarnið. Það er vandlifað. Stundum hef ég spurt mig hvað valdi? Af hverju er óþol svona algengt í dag? Jú, þessu hafa ýmsir fræði- og áhugamenn svarað mjög vel. Vitið þið hverju ég held fram? Þetta er algjörlega óábyrgt, bara það sem komið hefur upp í kollinn á mér. Æ fleiri eru nú meðvitaðir um hvaða áhrif fæðan hefur á þá. Ef fólki líður ekki vel af því sem það borðar, þá forðast það þann mat.
Súkkulaðiterta
Glúten- og laktósafrí.
Hitið ofninn í 180°C
Innihald:
- 3 stk. egg.
- ¾ bolli pálmasykur.
- 1 tsk. vanilluduft.
- Ég nota lífrænt.
- Kaupi það í heilsuhillum stórmarkaða eða heilsubúðum.
- Ég nota lífrænt.
- 150 gr. 70% súkkulaði.
-
- Má vera 56%.
- ¾ bolli kókosolía.
- 3 msk. kókoshveiti.
- 1 tsk. vínsteinsduft.
- ½ – 1 tsk. salt.
- 1 msk. rótsterkt uppáhellt kaffi.
-
- Má sleppa.
Hér á árum áður var ég stundum að ruglast á hvaða verkfæri á hrærivélinni ætti að nota þegar þeytt væri eða hrært. Með auknum þroska er ég nú með þetta á hreinu. Ég veit ekki hvort þetta sé í ættinni en dætur mínar hafa líka spurt mig að því sama. Það er kúlulaga verkfærið sem notað er þegar verið er að þeyta, falti spaðinn þegar verið er að hræra og krókurinn þegar verið er að hnoða..
Aðferð:
- Bræðið yfir vatnsbaði súkkulaði og kókosolíu.
- Þegar blandan er tilbúin látið þá aðeins rjúka úr henni.
- Eða á meðan pálmasykurinn og eggin eru þeytt.
- Þeytið mjög vel saman pálmasykur, egg og vanilluduft.
- Í um það bil fimm mínútur.
- Sigtið kókoshveitinu og vínsteinsduftinu út í eggjablönduna.
- Hellið síðan súkkulaðiblöndunni og kaffinu saman við.
- Blandið varlega saman við með sleikju.
- Hellið í kökuform.
- Ég nota kringlótt 27 cm form.
- Bakið við 180°C í 17 mínútur.
- Ég hef líka bakað hana í 15 mín og þá var kakan freka blaut en mjög góð.
Látið rjúka úr tertunni í um það bil tuttugu mínútur. Pikkið í hana með hníf og smyrjið hjúpnum yfir.
Ég skreytti hana með kókosmjöli, jarðarberjum og bláberjum.
Súkkulaðihjúpur
Innihald:
- 1 ½ dl. kókosrjómi
- 150 gr. 70% súkkulaði
- 1 tsk. lakkrísduft frá Johan Bulow (fæst í Epal) má sleppa en er ótrúlega gott.
Aðferð:
- Kókosrjóminn hitaður upp að suðu.
- Súkkulaðið brotið niður í bita.
- Súkkulaðinu og lakkrísduftinu hrært saman við.
- Látið kólna.
- Pikkið í tertuna með hníf og smyrjið hjúpnum yfir.
- Skreytið kökuna eins og ykkur finnst fallegast.
Ég er svo ánægð með þessa og diska og bolla sem ég búin að vera safna smátt og smátt í gegnum árin. Þeir eru eftir kunningjakonu mína Kristínu Garðarsdóttir.
Njótið.