Ég ætla ekki að fara að syngja hæ, hó, jibbí jey og allt það þó svo að mér finnist tilvalið að hafa grilluðu marsipan eplin í eftirrétt á 17. júní. Enda er ég ekki mjög lagvís. Fyrir þrjátíu og eitthvað árum, bauð vinkona mín mér upp á eplin í eftirrétt. Ég kolféll fyrir þeim á þeim tíma og hef gert þau með hléum í gegnum árin. Þegar ég fór að reyna að tengja eplin við 17. júní blasti tengingin við. Eplatré eru í mörgum görðum í Danmörku, vinkona mín býr í Danmörku og hverju erum við að fangna á 17. júní? Jú sjálfstæði Íslands.
Á 17. júní eru flestir úti að skemmta sér allan daginn. En ég veit það af eigin reynslu þá langar mann líka ótrúlega mikið að grilla eitthvað gott þegar heim er komið. Stundum er svo gaman að fara alla leið í grillinu, hafa bæði aðal og eftirréttinn grillaðann. Eplin taka ekki mikinn tíma í undirbúningi, sérstaklega ekki ef búið er að gera karamellusósuna fyrirfram.
Grilluð marsipan epli.
Miðað er við 1 stk. epli á mann, hlutföllin af marsipaninu og pekanhnetunum fara eftir því hversu mikið kemst í hvert epli. Ef lítil epli eru ekki fáanleg er hægt að skera stórt epli til helminga.
Innihald:
- 1 stk epli.
- Ég notaði þessi litlu lífrænu.
- Marsipan.
- Kanill.
- 1 dl pekanhnetur.
Aðferð:
- Þvoið eplið og kjarnhreinsið.
Ég notaði eplakjarnahreinsi áhald sem ég á. Það er örugglega hægt að gera það með hníf.
- Ristið pekanhneturnar og miljið þær.
- Skerið sneið af marsipaninu og blandið kanil og pekanhnetum saman við.
- Ég set allt í skál og blanda saman með höndunum.
- Búið til pylsu úr marsipaninu og setjið í eplið.
- Látið fyllinguna aðeins koma upp úr.
- Pakkið eplinu til hálfs í álpappír.
- Grillið í 18 – 20 mínútur.
- Gæðið ykkur á eplinu með karamellusósu og þeyttum rjóma eða ís.
Ef grill er ekki við hendina er hægt að baka eplin í 200°C ofni í 20 mínútur.
Karamellusósa
Innihald:
- 2 msk. pálmasykur.
- 2 msk. hunang.
- Ég nota lífrænt.
- 80 g smjör.
- 1 stk. vanillustöng.
- Skafið fæin innan úr.
- 1 dós kókosmjólk.
Aðferð:
- Allt sett í pott og látið sjóða við vægan hita í 30 mín.
- Hrærið í öðru hverju.
- Berið fram með grilluðu eplunum.
Vinkona mín Anna Fjóla ljósmyndari tók myndirnar.
Njótið.