Meðlæti, Ýmislegt

Heimagert jóla rauðkál

11. December, 2016
dsc_0778

Ég er frekar mikið jólabarn enda fædd á milli jóla og nýárs. Mér finnst aðventan vera dásamlegur tími með öllum sínum ljósum, fallega skrautinu og uppákomum.

Á árum áður gerði Ég miklar kröfur til mín fyrir jólin, því allt átti að vera fullkomið. Ég stjórnaði undirbúningnum af mikilli röggsemi. Saumaði jólafötin á börnin þrátt fyrir að vera engin saumakona, bjó til jólagjafir og jólakort og ég veit ekki hvað og hvað. Rúnar minn reyndi á sinn góðlátlega hátt að hægja aðeins á konunni sinni. Án árangurs. Á ákveðnum tíma aðventurnar voru bakaðar piparkökur með börnunum fjórum og stundum einhverjum gesta börnum. Ég reyndi auðvitað að tjasla saman piparkökuhúsi, ef það hefði verið keppni i ljótasta piparkökuhúsinu hefði ég unnið. En það skipti ekki máli fyrir börnin, þeim fannst húsið sitt stórkostlegt. Auðvitað voru bakaðar smákökur í stöflum. Allir í fjölskyldunni fengu sína uppáhalds smáköku bakaða, einhverjar nýjar sortir voru líka bakaðar og auðvitað tísku smákakan þau jólin. Húsið var þrifið hátt og lágt, Já á mínu heimili voru allir skápar og gardínur tá hrein um jólin. Ekki að það hafi verið óhreint á öðrum tímum.

Í jólareglunum mínum stóð stórum stöfum: Jólatréð má ekki skreyta fyrr en á þorláksmessukvöld,  skipta skal á öllum rúmum á aðfangadagsmorgun, allir þurfa að sofa í hreinum rúmum á jólanótt, já og ekki má gleyma því í nýjum náttfötum, eftir jólabarnatímann á að baða börnin og eftir baðið að keyra út pakkana til ömmu og afa. Rétt áður en klukkan slær sex á aðfangadagskvöld, á maturinn að vera kominn á borðið, prúðbúin fjölskyldan og gestir búin að koma sér fyrir í sínum sætum við fallega skreytt borðið. Ekki má snerta á neinu fyrr en kirkjuklukkurnar í útvarpinu slá inn jólin. Reglurnar voru þó enn fleiri og er ég sem betur fer búin að gleyma mörgum þeirra.

Með auknum þroska já og helling af gráum hárum hafa jólareglurnar mínar breyst heilmikið. Mjög margt hefur verið látið víkja. Nú til dæmis baka ég smákökur um helgi og við gæðum okkur á þeim með kaffinu samdægurs. Það er að segja ef ég er ekki að gera annað. Þessa aðventu er ég ekki enn farin að baka eina einustu smáköku. Fyrir nokkrum árum var innpökkunin mikill stessvaldur hjá mér, sem er ótrúlega skrítið þar sem ég elska að velja og kaupa gjafir fyrir fólkið mitt. Þannig að í nokkur ár fór ég með alla pakkana í blómabúð og fékk þeim pakkað inn. Síðar tók ég aftur við innpökkun. Jólatréð er nú skreytt löngu fyrir jól. Skipt er á rúmum allt árið eftir þörfum, líka um jólin. Heldur hefur dregið úr skápahreingerningum, sú í miðjunni kom reyndar að mér í morgun á kafi inn í eldhússkáp, sagðist ætla að taka mynd og setja á bloggið. Það sem mér fannst erfiðast að skilja við voru jólakortin. Í fyrra lofaði ég mér því að taka þau inn aftur, en því miður erum við ekki enn byrjuð að útbúa þau. Í ár verður gerðar byltingarkenndar breytingar. Þær verða örugglega ekki til frambúðr. Við ætlum að hafa hátíðarmatinn á aðfangadag kl. 17:00 eða þar um kring. Af hverju gæti einhver spurt? Ástæða þess er að á heimilinu eru eins árs gamlir tvíburar. Úlfatíminn þeirra hefst upp úr klukkan 19:00. Með þessu fyrirkomulagi vonumst við til að þeir nái að borða og opna pakkana sína í góðu formi. Þetta hljómar hugsanlega eins og að ég geri ekki neitt fyrir jólin. Auðvitað geri ég helling útbý eitt og annað góðgæti eins og áður fyrr. En nú reyni ég eftir fremsta megni að keyra mig ekki í kaf. Ég nýt jólanna með öllum þeim hátíðleika og samveru með fólkinu mínu sem þau bjóða upp á.

Jóla rauðkál

Skammturinn dugar öll jólin hjá mér.

dsc_0778

Innihald:

 • 1 stk. rauðkálshaus.
 • 2 stk. græn epli.
  • Ég nota mjög súr epli.
 • 2 msk. balsamic edik.
 • 2 dl. sólberjasafi.
  • Ég nota sykur skertan safa.
 • 2 msk. akasíu hunang.
 • salt og pipar.

Aðferð:

 • Skerið rauðkálið fínt niður.
 • Steikið rauðkálið við miðlungs hita í ca. fimm mínútur upp úr smjörinu.
  • Steikið það í smá skömmtun.
   • Ég steikti rauðkálið í þremur skömmtun.
    • Best að nota pott.
 • Setjið síðan allt rauðkálið í pottinn og bætið restinni af hráefnunum saman við.
 • Sjóðið við vægan hita í 40 mínútur.
 • Setjið þá rauðkálið heitt í krukkur og lokið.
dsc_0784

Skerið rauðkálið fín niður.

 

dsc_0785

Skiptið skammtinum í ca. þrennt og steikið hvern skammt fyrir sig.

 

dsc_0788

Rauðkálið steikt.

 

dsc_0791

Allt hráefnið sett i pottinn og soðið við vægan hita í 40 mínútur.

 

dsc_0798

Rauðkálið tilbúið í krukkurnar.

 

dsc_0806

Jóla rauðkálið tilbúið.

 

Með því að setja rauðkálið heitt í krukkur og loka þeim þá hafið þið lofttæmt krukkurnar. Geymist vel í ískáp í um það bil einn mánuð.

Gleðileg jól mín kæru og njótið.

Athugasemdir

athugasemdir

You Might Also Like