Eftirréttir / Kökur, Glútenlaust, Ýmislegt

Heimagert raw súkkulaði

3. October, 2015
DSC_0397

Daginn eftir að ég fór á hráfæðissúkkulaði námskeiðið hjá Kate, var haldið upp á afmæli tengdapabba hér á Njálsgötunni. Að sjálfsögðu kom ekki annað til greina en að bjóða upp á hráfæðissúkkulaði. Ég var svo sem ekki alveg viss um hvernig gestunum líkaði það en lét slag standa. Raðaði molunum fallega á veisluborðið og skrifaði á miða hvað þetta væri. Það átti ekkert að fara á milli mála hvað verið væri að bjóða upp á. Hafði á orði við eiginmanninn að það borgaði sig ekki að setja of mikið á borðið, það þætti þetta örugglega engum gott nema okkar fjölskyldu.

En það var nú eitthvað annað, þegar gestirnir lásu á miðann og sáu molana og fengu að vita að húsmóðirin hefði búið þá til, voru flestir mjög spenntir að smakka. Það kom gestunum skemmtilega á óvart hversu gott þetta súkkulaði væri. Ég veit að það var ekki bara sagt fyrir kurteisissakir, því við þurftum margoft að bæta molum á bakkann.

Þegar þetta er skrifað eru þrjár vikur síðan ég fór á þetta dásamlega súkkulaðinámskeið. Ég er margoft búin að gera súkkulaði, bæði fyrir okkur fjölskylduna og einnig í gjafir. Nú er ég óhrædd farin að leika mér með samsetningar, hef t.d. notað karamellu stevíu í kókoskúlurnar og appelsínu blómadropa í súkkulaðið. Súkkulaðið hef ég sett í lítil konfektmót og líka í stórt tertuform. Það finnst mér mjög smart en þá brýt ég það niður í hæfilega bita þegar ég ber það á borð.

Súkkulaðið geymi ég í ísskápnum. Með góðri samvisku, næli ég mér í smá bita og gæði mér á því nánast daglega.

Kókoskúlur

Hráfæðis sælgæti

DSC_0337

Innihald:

 • 3 bollar kókosflögur.
 • 2 msk. fljótandi kókosolía.
 • 2 msk. hunang.

Þessu má sleppa en ég notaði bláberja acai duftið að þessu sinni.

 • 1 tsk. spirulína, mucunaduft eða bláberja acai duft.
 • Þetta flokkast sem ofurfæði í heilsugeiranum og fæst í heilsubúðum.

Aðferð:

 • Mixið kókosflögurnar í matvinnsluvél.

  DSC_0326

  Kókosolían brædd.

 • Hellið í skál.
 • Bræðið kókosolíuna.
  • Setjið kókosolíuna í litla skál og skálina í sjóðandi vatn í stutta stund.
 • Blandið öllum innihaldsefnunum saman.
  • Ég geri það með höndunum.
 • Setjið skálina inn í ísskáp í c.a. 30 mín.
  • Þarf að stífna áður en kúlurnar eru mótaðar.
 • Mótið litlar kúlur.
 • Hjúpið með súkkulaði.
  • Uppskrift hér að neðan.
DSC_0344

Búið að blanda í kókoskúlurnar

 

DSC_0352

Búið að móta kókoskúlurnar

 

DSC_0375

Kókoskúlurnar hjúpaðar

 

DSC_0379

Búið að hjúpa

 

Súkkulaði

Áður en ég fór á súkkulaðinámskeiðið lét vinkona mín mig fá þessa uppskrift af súkkulaði. Mér finnst það koma ótrúlega vel út að hjúpa kókoskúlurnar með því. Ég er búin að gera ýmsar ótrúlega góðar útfærslur á því. Læt tvær fylgja.

Gætið þess að ekki fari vatn í kakósmjörið!

DSC_0349

Innihald:

 • 1 bolli lífrænt kakósmjör.
 •  1 bolli lífrænt kakóduft.
 •  ½ bolli hunang.
 •  1 tsk. lífrænt vanilluduft.

Aðferð:

 • Bræðið kakósmjörið.
  • Setjið skálina í sjóðandi heitt vatn.
   • Tekur nokkrar mínútur.
 • Takið skálina úr vatninu.
 • Bætið restinni af innihaldsefnunum út í og hrærið vel saman.

DSC_0360

 • Notið um það bil helminginn af súkkulaðinu til að hjúpa kókoskúlurnar og restina til að gera súkkulaðimola.
  • Bætið þá öðrum bragðefnum út í súkkulaðið.
  • Hellið í form og látið stífna inn í ísskáp.
 • Hjúpið kóloskúlurnar.
 • Dýfið kúlunum í súkkulaðið og þekjið þær.
 • Leggið kúlurnar á  smjörpappír og látið hjúpinn stífna.

Útfærsla eitt

Innihald:

 • 1 bolli lífrænt kakósmjör.
 • 1 bolli lífrænt  kakóduft
 •  ½ bolli hunang.
 •  2  tsk. raw lakkrísduft frá Johan Bulow
  • Fæst t.d. í Epal.
 • 1 tsk. saltflögur
 • 1 dl. möndluflögur til að dreifa yfir súkkulaðið þegar það er komið í formið.

DSC_0386

Útfærsla tvö

Innihald:

 • 1 bolli lífrænt kakósmjör.
 • 1 bolli lífrænt kakóduft
 • ½ bolli hunang.
 • 2 dropar appelsínu blómadropar.
  • Fást í heilsubúðum.
 • 1 dl pistasíuflögur til að dreifa yfir súkkulaðið þegar það er komið í formið.

Endilega útbúið ykkar eigin útfærslu. Ég hef ekki enn gert úfærslu sem mér finnst vond. Sjö, níu, þrettán.

Aðferð:

 • Eins og hér að ofan.

Ýmist helli ég súkkulaði blöndunni í lítil konfektmót eða í kringlótt sílikon tertumót. Þá fæ ég stór stykki sem ég brýt niður í hæfilega bita. Mér finnst það eiginlega bæði flottara og svo er það líka miklu fljótlegra. Súkkulaðið þarf að stífna í um það bil tvo tíma í ísskáp áður en hægt er að borða það. Þar fyrir utan geymi  ég súkkulaðið í ísskáp í lokuðu íláti.

DSC_0397

Njótið.

 

Athugasemdir

athugasemdir

You Might Also Like