Ýmislegt

Heitur camembert brauðréttur að hætti tengdamömmu

12. December, 2015
DSC_0081

Bloggið mitt finnst mér góður vettvangur til að minnast tengdamömmu minnar Dagrúnar Þorvaldsdóttur. En hún lést í nóvember síðastliðnum, eftir að hafa glímt við alzheimer sjúkdóminn í níu ár. Eins og flestir vita verður sjúkdómurinn m.a. þess valdandi að smám saman hverfa minningar og persónuleiki fólks breytist. Þegar sjúkdómurinn fór að taka völdin var eins  og Dagrún ákvæði að taka honum með reisn og bros á vör. Það var ótrúlegt að fylgjast með henni. Nánast allt fram í andlátið var Dagrún ávallt kát og brosandi.

Dagrún starfaði sem húsmóðir nánast allt sitt líf. Hún og Björgvin Guðmundsson tengdababbi eignuðust sex syni þar af 5 á sex árum. Þið getið rétt ímyndað ykkur hvort ekki hafi verið nóg að gera á stóru heimili. Dagrún sá nánast alfarið um allt sem sneri að heimilinu því eins og gefur að skilja vann Björgvin alltaf mjög mikið.

Dagrún er ein þeirra kvenna sem hafa haft mikil áhrif á mig. Ég man þegar ég hitti hana fyrst hvað mér fannst hún bæði tígurleg og falleg kona og hversu glæsilegt heimilið var. Dagrún var það sem kallað var elegant, klæddist fallegum og vönduðum fötum, sem fóru henni ótrúlega vel, hún var mjög listræn, málaði á postulín og mótaði úr leir, ræktaði fallegan garð, í eldhúsinu var hún órög að prófa hina ýmsu rétti og eldaði sérstaklega góðan mat, bakaði  bæði fallegar og góðar kökur og svo mætti lengi telja.

Dagrún var mikil fjölskyldukona og sérstaklega barngóð, hún elskaði fólkið sitt og vildi allt fyrir það gera. Þegar strákarnir hennar voru farnir að heiman og höfðu stofnað sínar fjölskyldur, fannst henni mikilvægt að allir hittust reglulega. Þetta var engin smá hópur sem kom saman. Haldin voru glæsileg jólaboð, jólaglögg rétt fyrir jól, afmæli, grillveislur bæði í garðinum hjá þeim hjónum og víða út á landi. Dagrún lagði á sig ómælda vinnu við allan undirbúninginn.

Eins og ég sagði var Dagrún órög við að prófa hina ýmsu rétti. Það var margt sem ég smakkaði hjá henni og hafði ekki fengið annars staðar. Til dæmis fékk ég heitan brauðrétt hjá henni borin fram með sultu, okkur fannst frekar framandi að setja sultu á brauðrétt, en viti menn það féllu allir í fjölskyldunni  fyrir honum. Fyrstu sörunar sem ég smakkaði fékk ég líka hjá tengdamömmu. Það var ekki bara að þær brögðuðust vel, þær voru allar nákvæmlega jafn stórar og eins í laginu. Þannig var það ekki hjá mér þrátt fyrir að baka eftir uppskrift tengdamömmu.

Skömmu eftir jarðarför Dagrúnar ákvað Björgvin að kalla fjölskylduna saman til að minnast hennar. Skoða myndir, horfa á vídeó og borða góðar veitingar. Hver fjölskylda kom með góðgæti sem lagt var á hlaðborð. Ég ákvað að koma með rétt sem ég hafði fengið uppskrift af frá Dagrúnu. Þrátt fyrir að hafa aðeins breytt brauðréttinum er hann í grunninn frá henni. Takk fyrir allt kæra Dagrún.

 Camembert brauðréttur

Áætlað fyrir sex til átta fullorðna með öðru kaffimeðlæti.

Byggður á brauðrétti sem tengdamamma útbjó fyrir veislu hjá sér.

DSC_0034

Innihald:

  • 1 stk. gott súrdeigsbrauð.
  • 1 bréf hráskinka.
  • 1 stk camembert ostur.
  • 1 dós kókosmjólk.
  • 3 stk. paprikur /rauð/græn/gul.
  • 1 msk. grænmetiskraftur.
    • Ég nota lífrænan og glúteinlausan.
  • Góð berjasulta.
    • Ég nota alltaf sykurlausa bláberjasultu. Þessa í löngu krukkunum.
      • Tengdamamma notaði alltaf rifsberjahlaup.

Aðferð:
  • Bræðið saman við lágan hita kókosmjólkina og camembert ostinn.
    • Tilbúið þegar osturinn er bráðinn.
      • Ég sker ostinn í nokkra bita.
  • Bætið grænmetiskraftinum saman við þegar osturinn er bráðnaður.
  • Skerið skorpuna af brauðinu og rífið eða skerið það niður í frekar litla bita.
  • Raðið brauðinu í eldfast form.
  • Hellið kókosmjólkinni og ostinum yfir.
  • Skerið paprikurnar niður í litla bita og dreifið yfir brauðið.
  • Skerið eða klippið hráskinkuna niður og dreifið yfir brauðið.
    • Mér finnst best að klippa hráskinkuna niður.
  • Bakið við 180°C í 15 – 20 mínútur. Berið brauðréttinn fram heitan með góðri berjasultu.
DSC_0055

Bræðið ostinn í kókosmjólkinni.

 

DSC_0068

Hrærið í á meðan osturinn er að bráðna.

 

DSC_0042

Brauðið skorið eða rifið niður í litla bita.

 

DSC_0036

Fuglarnir fá skorpuna.

 

DSC_0046

Á leið í ofninn.

 

DSC_0081

Sígildur og ótrúlega góður.

Njótið.

Athugasemdir

athugasemdir

You Might Also Like