Eftirréttir / Kökur, Glútenlaust

Hráfæðiskaka með pekanhnetum

5. June, 2015
DSC_0548

Mikið stendur til á Njálsgötunni. Sú í miðjunni var að skríða í þrítugt í vikunni. Á slíkum tímamótum er auðvitað blásið til veislu.  Við sjáum fyrir okkur huggulega garðveislu í litla bakgarðinum okkar, það á eftir að koma í ljós hvort veðrið verði í liði með okkar. En við erum bjartsýnar.

Eftir miklar vangaveltur okkar mæðgna voru veitingar ákveðnar. Grill, gaman og eftirréttir. Eins og okkar er von og vísa viljum við aðeins bjóða gestunum okkar upp á hollan, góðan og fallegan mat. Við undirbúninginn finnst okkur mikilvægt að hafa hlutina frekar einfalda. Ekki að standa á haus og vera dauðlúin þegar  glaðir veislugestir mæta.

Hráfæðiskakan fellur undir einföld í undirbúningi, verður bara betri ef hún er útbúin fyrirfram, jafnvel tveimur til þrem dögum áður. En sé það gert ekki láta muldu pekanhneturnar ofan á hana fyrr en hún er borin fram og geymið hana í ísskáp eða frysti.

Auk hráfæðipekantertunnar ætlum við líka að bjóða upp á ferskt ávaxtasalat í eftirrétt úr: melónu, bláberjum, jarðarberjum, nektarínum, vínberjum og mangó. Ég gæti trúað að einhverjir snæddu kökuna og ávaxtasalatið saman. Það ætla ég að gera.

DSC_0526

Botn

Allt hráefnið sem ég notaði í kökuna var lífrænt nema súkkulaðið.

En að sjálfsögðu er það engin skylda.

Innihald:

 • 6 dl mjúkar döðlur
  • Ef þær eru harðar þá leggið í bleyti í 15 – 30 mín.
 • 5 dl kókosmjöl.
 • 2 ½ dl ristaðar pekanhnetur.
  • Takið- ½ dl frá til að setja ofan á kökuna.
 • ½ tsk vanilluduft.

Aðferð:

 • Maukið döðlurnar í matvinnsluvél.
 • Takið 3 msk frá.
 • Bætið restinni af hráefnunum saman við og blandið vel saman.
 • Setjið í form og þjappið.
  • Formið sem ég nota er 27  cm.
  • Ef ekki er notað sílikonform setjið þá smjörpappír í botninn.

Á meðan verið er að gera kremið er best að geyma botninn í ískáp.

DSC_0532

Súkkulaðikrem

Innihald:

 • 100 g suðusúkkulaði
 • 2 dl kókosolía
 • 1 dl kakóduft
 • Döðlumaukið sem tekið var frá.
 • 2 dl soya – möndlumjólk.
 • ½ dl lífrænt hunang
 • Sjávarsalt eftir smekk
 • ½ tsk. vanilluduft.

Aðferð:

 • Allt hráefnið sett í pott og brætt saman við lágan hita.
  •  Hrærið stöðugt í á meðan.
 • Kremið sett ofan á botninn og muldum pekahnetum stráð yfir.
 • Skorið í fallega bita og borðið fram.

Áður en kakan er skorin er best að hafa hana inn í ískáp meðan kremið er að stífna..

DSC_0540

 

DSC_0548

Ef afgangur er af kökunni er best  að geyma hana í ískápnum.

Njótið.

 

Athugasemdir

athugasemdir

You Might Also Like