Álegg, Bakstur, Glútenlaust

Hrökkbrauð og kasjúhnetuostur

12. June, 2015
DSC_0661

Um daginn þegar ég var að kaupa enn einn stóra skammtinn af hnetum og möndlum. „Við borðum ótrúlegt magn af hnetum og möndlum á þessu heimili”. Spurði afgreiðslustúlkan mig hvað ég væri að gera úr þeim? Ég sagði henni það. Þá spurði hún mig hvort ég gerði ost úr kasjúhnetum? Nei það hafði ég ekki gert. Forvitni mín var vakin, ég spurði hana nánar út í ostagerðina. Hún leiddi mig í allan sannleikann, en sagði jafnframt að best væri að fara á netið í upplýsingaleit. Um leið og ég kom heim úr búðarferðinni fór ég í kasjúhnetuosta leit á netinu. Ég fann helling af uppskriftum, flestar erlendar, ég lá yfir þeim. Þær voru allar mjög svipaðar, það sem var einkennandi fyrir innihald þeirra flestra var: Kasjúhnetur, sítróna, edik og næringarger. Eftir leitina fór ég strax í ostagerðina. Verð bara að segja að hann kom skemmtilega á óvart og hefur hann verið gerður vikulega síðan samtalið við afgreiðslustúlkuna fór fram. Ég ætla bara að láta það flakka. Mér finnst ég verða eitthvað svo mikil búkona þegar ég er farin að gera ost. Það er kannski ekki smart að vera búkona?

Nú geta mjólkuróþolspúkarnir mínir gætt sér á osti.

Uppskriftin af hrökkbrauðinu varð til hjá mér þegar við hjónin vorum í mataræðisprógraminu. Í gömlu uppskriftinni minni voru t.d. 4 egg. Þar sem eggin voru ekki inni á þeim tíma fór ég að skoða hvað hægt væri að nota í stað þeirra í bakstur. Það var svo sem ýmislegt en ég valdi að nota eplamúsina í hrökkbrauðið.  Í fyrstu bakaði ég það aðeins einu sinni og varð það þá lint, en smakkaðist ágætlega. En þannig á hrökkbrauð ekki að vera. Eins og í góðu tilraunaeldhúsi þróaðist það smám saman í þetta fína tvíbakaða stökka hrökkbrauð.

Hrökkbrauð

Glútenlaust án eggja

Tvíbakað ekkert vesen.

DSC_0581

Innihald:

  •  400 g fræ.
  • 4 dl eplamús.
    • Ég kaupi lífræna.

Það er hægt að nota hvaða fræ sem er í kexið. Ég nota það sem ég á í skápnum í það og það skiptið.

Að þessu sinni notaði  ég:

  • 50 g hampfræ.
  • 50 g chiafræ.
  • 100 g sólblómafræ.
  • 100 g graskersfræ.
  • 100 g sesamfræ.

 Aðferð:

  • Fræblandan sett í skál.
  • Eplamúsinni bætt við og blandað saman með t.d. sleikju.
  • Blöndunni dreift á ofnplötu  klæddri smjörpappír og þjappað.
    • Ég nota sleikjuna til að dreifa úr blöndunni og þjappa.
  • Skerið í mátulega stóra bita sem henta ykkar heimili.
    • Ég nota sleikjuna til að skera kexið.

 

Tvíbakað

Fyrri bakstur:

  • Ofninn stilltur á 90°C og bakað í 90 mín.
  • Látið kólna í ca klukkutíma eða meira.

Seinni bakstur:

  • Ofninn stilltur á 110°C og bakað í 50 mín.

Ég hef líka geymt seinni baksturinn þar til daginn eftir.

DSC_0625

 

Rúnar maðurinn minn fær sér alltaf hrökkbrauð hann kallar það reyndar frækex og kasjúhnetuost í morgunmat. Þetta er meira svona hádegismatur hjá mér.

Kasjúhnetuostur

Þetta er vikuskammtur á mínu heimili (þrír fullorðnir).

 Kasjúhnetuosturinn smakkast líkt og  BESTI  rjómaostur.

DSC_0648

Innihald:

  • 2 bollar kasjúhnetur.
    • Lagðar í bleyti í minnst 2 tíma.
  • ¼ dl kalt vatn.
  • 2 msk. næringarger.
  • 3 msk sítrónusafi.
    • Um það bil ½ sítróna.
  • 2 stk. hvítlauksgeirar.
  • ½ rauð paprika.
  • 2 msk. eplaedik.
    • Ég nota lífrænt.
  • 1 msk. dijon sinnep.
  • Saltflögur og pipar.

Aðferð:

  • Vatninu hellt af hnetunum og þær skolaðar.
  • Setjið síðan öll innihaldsefnin í matvinnsluvél og vinnið MJÖG  vel saman.
    •  Blandan á að vera silkimjúk.
    • Ef innihaldið sest á barma skálarinnar stoppið þá vélina og blandið því saman við.
  • Setjið í glerílát með loki.
  • Hafið í kæli í tvo tíma áður en osturinn er borðaður.
  • Osturinn geymist í kæli í eina viku.

DSC_0656

 

Njótið.

 

Athugasemdir

athugasemdir

You Might Also Like