Bakstur, Eftirréttir / Kökur

Karamellukaka

26. June, 2015
DSC_0696

Kannast einhver annar við það að vera horfa á matreiðsluþátt í sjónvarpinu og eins og í leiðslu stendur maður upp úr sófanum og fer að baka eða elda, það sem verið er að sýna? Ég segi ekki að það gerist í hvert sinn sem ég horfi á matreiðsluþátt. Þá væri ég bakandi og eldandi öll kvöld, þar sem matreiðsluþættir eru í töluverðu uppáhaldi hjá mér. En það gerðist þegar ég horfði á þáttinn Eldað með Ebbu og hún var m.a. að baka þessa karamelluköku. Ég bara varð að smakka á þessari köku, það mátti alls ekki bíða. Það er ekki til eftirbreytini að gæða sér á köku eftir kvöldmat, en nauðsyn brýtur lög. Eða þannig. Fyrir utan það hvað mér fannst karamellukakan allt í senn, girnileg, einföld og í hollari kantinum,  það var karamellan sem gerði útslagið, þá er líka svo fljótleg að skella í þessa köku. Ekki skemmir það ánægjuna.

Karamellukakan var ekki aðeins bökuð í þetta eins sinn. Ó nei, hún er bökuð töluvert oft og er alltaf jafn vinsæl á okkar heimili.

Uppskrift

Hitið ofninn í 175°C

Ég byrja alltaf á karamellunni. Á meðan hún mallar í pottinum geri í kökudeigið og baka kökuna.

Einn, tveir og bingó kakan tilbúin.

Innihald:

 • 3  stk. egg.
 • 90 gr. pálmasykur.
 • 1 stk. vanilluduft.
  • Ég nota lífrænt.
 • 2 tsk. vínsteinslyftiduft
 • 130 gr. spelt.
  • Að þessu sinni notaði ég 60 g fínt og 70 g gróft.
   • Ég notaði lífrænt.
 • 100 gr. brætt smjör.
  • Ég hef stundum blandað saman 50 g af smjöri og 50 g af kókosolíu.
   • Það kemur líka mjög vel út.

DSC_0667

Aðferð:

 • Hitið ofninn í 175 °C.
 • Þeytið vel saman egg og pálmasykur.
  • Tekur ca 4 mínútur.
 • Bætið  smjörinu við og haldið áfram að þeyta í stutta stund.
  • Eins og eina mínútu.
 • Blandið  speltinu varlega saman og.
  • Gott að nota sleikju.
 • Setjið í um 24-26 cm kringlóttkökuform
 • Bakið í um 16-18 mínútur.

DSC_0676

 

Karamellan ofan á

Þessa uppskrift af karamellu nota ég með öllu mögulegu sem ég geri. Hún var t.d. með grilluðu eplunum og pekantertunni sem eru hér á síðunni. Auk þess hef ég borðið hana fram með vöfflum eða ís. Stundum set ég salt eða lakkrísduft út í hana og er þá komin með þessa fínu salt eða lakkrískaramellu. Eða bæði salt og lakkrísduft og er þá með saltlakkrís karamellu, það er ótrúlega gott.

Innihald:

 • 2 msk. pálmasykur.
 • 2 msk hunang.
  • Ég nota akasíuhunang.
 • 80 g smjör
 • 100 ml kókosrjómi
 • 1 tsk vanilluduft.
  • Setjið vanilluduftið út í þegar karamellan er tilbúin.
   • Hrærið vel saman.

DSC_0682

Aðferð:

 • Sjóða saman við vægan hita í potti.
 • Látið rétt krauma í ca 30 mín.
  • Hrærið öðru hverju.
 • Kæla í stutta stund.
  • Þá þykknar karamellan aðeins.
 • Stingið í kökuna með hníf áður en karamellunni er hellt yfir.
  • Þá verður kakan enn meira djúsí.
 • Hellið karamellunni yfir kökuna.
  • Mér finnst smart þegar hún flæðir út á tertudiskinn.
 • Skreytið með t.d. ristuðum pekanhnetum og kókosflögum.
  • Þar sem nú er sumar skreytti ég hana líka með stjúpum úr garðinum.

Mér finnst ótrúlega gott að hafa þeyttan rjóma með karamellukökunni.

Ég veit að margir eru að velta fyrir sér hvað þessi  pálmasykur er og hvort einhver munur sé á honum og venjulegum hvítum  sykri. Með leyfi Ebbu birti ég það sem hún skrifar um pálmasykurinn.

Pálmasykur/Kókospálmasykur: er sæta unnin úr blómum pálmatrjáa. Safanum er safnað saman og hann soðinn í karamellu. Þá er hann þurrkaður og mulinn í kókospálmasykur. Kókospálmasykur inniheldur ýmis vítamín og steinefni og er sagður vera með helmingi lægri sykurstuðul en hvítur sykur. Ég nota hann í staðinn fyrir sykur þegar ég er að baka. Hann er bragðgóður, hefur ögn sætan karamellukeim. Hann má nota í sömu hlutföllum og hvítan sykur í uppskriftir. Hann er til í heilsuhillum margra stórmarkaða og í öllum heilsubúðum.

Njótið.

Athugasemdir

athugasemdir

You Might Also Like