Fiskur, Ýmislegt

Karrý steiktir þorskhnakkar með karrý steiktum lauk, karrý steiktum bönunum og hýðis hrísgrjónum

28. December, 2014

Karrý steiktir þorskhnakkar með karrý steiktum lauk,  karrý steiktum bönunum og hýðis hrísgrjónum

Thorskhnakkar

Fiskur er í miklu uppáhaldi hjá okkur í fjölskyldunni. Það er ekki bara að okkur finnist fiskur góður, Rúnar er í fiskunum, starfar í fiski og auk þess er mikið talað um fisk á heimilinu. Þess vegna hef ég valið að hafa fyrstu færsluna fiskuppskrift. Einhverjum kann að þykja þessi samsetningin skrítin, passi ekki saman og allt of mikið af karrýi. En trúið mér þetta er ótrúlega góður réttur,  sem eldaður er bæði  hversdags og spari hjá okkur.

Þó svo að ég gefi upp gróft spelt, brún egg og maldon salt er að sjálfsögðu hægt að nota hvaða mjöl, egg og salt sem er.

 Innihald:

  • 200 – 250 gr af þorskhnökkum á mann
  • ½ – 1 banani á mann
  • 1 stk laukur á mann
  • 1 bolli gróft spelt
  • 2 – 3 stk  egg
  • Kara
  • Maldon salt
  • Pipar
  • Smjör
  • Olía
  • hýðis hrísgrjón

Hefjumst þá handa.

Byrjið á að steikja laukinn og sjóða hýðis hrísgrjónin. Það tekur lengsta tímann. Hjá mér rétt dugir að hafa einn lauk á mann. En þið þekkið ykkar heimafólk með magn.

Laukur a ponnuAðferð:

  • Flysjið laukinn og skerið hann í tvennt og síðan í þunnar sneiðar.
  • Setjið 50 gr smjör (fyrir þrjá lauka) og 1 msk af olíu og 2 tsk karrý á pönnu eða í pott.
  • Stillið helluna á lágan hita. Hjá mér eru sex stillingar og ég stilli á einn.
  • Hrærið smjörinu, olíunni og karrýinu saman, þar til að smjörið er bráðið og karrýið aðeins farið að brúnast.
  • Bætið lauknum út í og leyfið honum að malla á pönnunni í 50 mínútur þá verður hann fullkominn .
  • Hrærið í öðruhverju.
  • Sjóðið hýðis hrísgrjónin eftir leiðbeiningum á umbúðunum.

 Á meðan laukurinn kraumar á pönnunni og hýðis hrísgrjónin sjóða í pottinum  er fiskurinn, bananarnir og sósan  útbúin.

Næst eru það þorskhnakkarnir

Aðferð:Thorskhnakkar a diski

  • Skerið þorskhnakkana í hæfilega stóra bita. Hver biti hjá mér er 8 – 10 cm.
  • 1 bolli gróft spelt sett í skál.
  • 2 stk egg sett í aðra skál 1 tsk salt og pipar hrært saman með gaffli.
  • 100 g smjör, 2 msk olía og 3 tsk karrý sett á pönnuna og brætt.
  • Hitinn á eldavélahellunni stillt á 2 hjá mér.
  • Veltið fiskinum fyrst upp úr egginu og síðan upp úr speltinu.
  • Setjið fiskinn á pönnuna og steikið í ca þrjár- fjórar  mínútur á hvorri hlið
  •  Gætið þess að snúa fiskinum ekki of fljótt því þá fer speltið af honum.
  • Færið síðan fiskinn upp á diskinn eins og segir í gamalli þulu 😉

 

Það er eins með bananana og laukinn. Einn banani á mann rétt dugir fyrir mína fjölskyldu.

 

Síðast eru bananarnir steiktir. Notið sömu pönnu og laukurinn var steiktur á þá kemur smá laukbragð af bönunum.

 Aðferð:

Bananar

  • Skerið bananann í tvennt og síðan eftir endilöngu
  • Ca 50 g smjör + 1 msk olía og 1 msk karrý sett á pönnuna og brætt saman við lágan hita.
  • Bananarnir steiktir þar til þeir eru eins og á myndinni hér til hægri.

 

 

 

 

 

 

 Köld karrýsósa

Fyrir þá sem vilja kalda karrýsósu tekur aðeins eina mínútu að gera  þessa.

Innihald:

  • 1 dós sýrður rjómi ég nota 10%
  • 1 msk karrý
  •  1 msk lífrænt hunang
  •  1- 2 tsk lífrænt sinnep
  • Maldon salt
  • pipar

 Aðferð:

  • Allt hráefnið sett í skál og hrært saman.

 

Verði ykkur að góðu og njótið.

Athugasemdir

athugasemdir

You Might Also Like