Kjúklingur, Sósur, Ýmislegt

Kjúklingaspjót með döðlusósu, grænkálssnakki og grilluðum rauðlauk.

18. August, 2015
DSC_1122

Í síðustu færslu sagðist ég nota döðlusósuna með öllu mögulegu. Hvað meinar þú með öllu mögulegu? Gæti einhver spurt. Hverju? Ég þarf iðulega að fá nánari nánari útlistanir á þessu öllu mögulegu þegar það er sagt við mig.

Ég veit ekki af hverju mér finnst það þá smellpassa að segja frá prjónakonunni sem ég hitti eitt sinn í garnverslun en hún sagðist vera að kaupa garn í pönnukökupeysu. Það var eins og allir í kringum mig í versluninni vissu um hvað hún væri að tala. En ekki ég, gat ómögulega séð pönnukökupeysu fyrir mér, var þó viss um að þetta væri peysa sem allir væru að prjóna, svo ég spurði. Þetta er bara svona venjuleg peysa sem maður skellir í án þessa að hafa uppskrift upplýsti hún mig um. Þar hafði ég það.

Það er ekki nóg að segja bara öllu mögulegu, það er líka gott að koma með dæmi. Þess vegna ákvað ég að koma með aðra uppskrift þar sem döðlusósan góða kemur við sögu.

Kjúklingaspjót virðast vera sí vinsæl. Þegar ég er með smáréttaveislu býð ég iðulega upp á kjúklingaspjót borin fram með döðlusósu. Það er sama hversu mikið ég útbý, þetta klárast alltaf upp til agna.

En það er ekki bara í veislum sem ég er með kjúklingaspjót. Mér finnst líka ótrúlega gaman að hafa þau í matinn fyrir fjölskylduna. Þegar spjótin eru á boðstólnum er alltaf eitthvað svo mikið um að vera við matarborðið. Allir eru að teygja sig í spjót nei, nei ekki allir í einu, við erum líka kurteis og réttum, ná í meðlæti og jafnvel telja hversu mörg spjót hann/hún hafi innbyrgt. Þó það skipti engu, máli bara gaman.

Þegar spjótin voru í matinn í vikunni hafði Rúnar orð á því að þetta væri svolítið sérstök samsetning. Hann væri vanari að fá kartöflur, hrísgrjón eða kínóa með matnum. Nei ekki í þetta sinn elskan. Nú væri það kjúklingaspjót, döðlusósa, grænkálssnakk og grillaður rauðlaukur. Ekki vera of fastur í samsetningum eins og þú sagðir sjálfur fyrir ekki svo löngu síðan.

Þennan sama dag og kjúklingaspjótin áttu að vera í matinn var ég að lesa um hollustu grænkáls. Eftir lesturinn fannst mér það frekar slæmt að það væri ekki á topp tíu listanum hjá mér yfir uppáhalds grænmetið. Ákvað að bæta aðeins út grænkáls skortinum og útbúa grænkálssnakkið, sem ég hafði gert nokkrum sinnum áður, eftir uppskrift úr gömlum Gestgjafa. Mér finnst það reyndar ótrúlega gott og okkur öllum. Ég ætti kannski að gera það oftar. Grillaður rauðlaukur er í miklu uppáhaldi hjá mér, bæði með grilluðum kjúkling og grilluðu lambakjöti. Þess vegna fékk hann að vera með. Þegar ég svo horfði á samsetninguna á diskinum fannst mér hún vera svona eins og óvissuferð. En eins og svo margar óvissuferðir fannst fjölskyldunni þessi bara nokkuð vel lukkuð.

Kjúklingaspjót

Mér finnst ótrúlega gott að nota kjúklingalæri í spjótin, kjötið á þeim er svo mjúkt. 

Við vorum þrjú í mat, ég var með 900 gr af kjúklingalærum. Þrjú spjót voru í afgang, Rúnar fór þau í nesti daginn eftir.

DSC_1099

Innihald:

 • Úrbeinuð kjúklingalæri/kjúklingabringur.
 • 1/​2 dl ses­a­mol­ía.
  • Ég kaupi lífræna
 • 2 msk. ses­am­fræ.
 • 2 msk. tamarinsósa.
  • Gútenlaus.
 • safi úr 1/​2 sítr­ónu.
 • 1 stk. rauður chili.
 • 1  msk. akasíu hunang.
 • 4 stk. hvít­lauks­geir­ar.

DSC_1111

Aðferð:

 • Skerið lærið eftir endilöngu.
 • Þræðið kjúklinginn upp á grillpinna.
  • Mér finnst betra að gera það áður en ég marinera.
 • Blandið öllu saman sem á að fara í marineringuna.
 • Setjið kjúlingaspjótinn í plastpoka.
 • Hellið marineringunni yfir.
 • Nuddið pokann til að marineringinn fari yfir allan kjúklinginn.
 • Látið marinerast í tvær klukkustundir í ískáp.
  • Má vera lengur.
 • Grillið.
  • Snúið á ca 5 mínútna fresti þar til kjúklingurinn er grillaður í gegn.
 • Sáldrið sesamfræjum yfir spjótin þegar þau eru tilbúin.

Ef grill er ekki til staðar er hægt að ofnbaka kjúklingaspjótin við 200°C í ca. 20 mínútur .

Grænkálssnakk

Vorum þrjú í mat og kláruðum skammtinn upp til agna.

DSC_1085

Innihald:

 • 1 poki grænkál.
  • 150 g.
 • 2 msk. olía.
  • Alls ekki meira, þá verður snakkið ekki brakandi undir tönn.
 • Flögusalt.

DSC_1094

 

Aðferð.

 • Rífið grænkálið af stönglinum.
 • Dreypið olíunni yfir.
 • Setjið grækálið í ofnskúffu.
 • Saltið.
 • Bakið við 200°C í 10 mínútur.

DSC_1097

Grillaður rauðlaukur

DSC_1113

Innihald:

 • 1 stk. rauðlaukur á mann.

Aðferð:

 • Flysjið rauðlaukinn.
 • Pakkið honum inn í álpappir.
 • Bakið á meðal heitu grilli í 35 – 40 mínútur.

DSC_1122

Döðlusósa

DSC_1035

Hér finnið þið döðlusósuna.

Njótið.

 

Athugasemdir

athugasemdir

You Might Also Like