Fyrsta sem kom upp í huga mér þegar ég var að byrja á færslunni var að skrifa. Þessi réttur er ofboðslega góður þið verið endilega að prófa hann. En áður en lengra var haldið staldraði ég samt sem áður við og hugsaði örskamma stund að ég gæti það ekki. Það væri ekki hægt að byrja margar færslur á þann hátt. Fólk hætti bara að trúa mér ef ég segði að allt væri gott. Það er nú alls ekki þannig. Þrátt fyrir að vera matargat finnst mér alls ekki allt gott. Verð þó að segja að þessi matur fannst mér sérstaklega góður.
Mér finnst laxinn fullkominn helgarmatur og ég þori nánast að fullyrða að engin verður svikin af honum.
PS.
Ef svo ólíklega vildi til að afgangur væri af laxinum er hægt að útbúa salat ofan á brauð daginn eftir. Þá sjóðið þið tvö egg og skerið niður. Laxinum og eggjunum er hrært út í sýrðan rjóma. Magnið af sýrða rjómanum fer eftir því hversu mikið er eftir af laxinum.
Ég byrjaði að útbúa ofnbökuðu kartöflurnar þar sem þær taka lengsta tímann í ofninum.
Uppskriftir
Ofnbakaðar chili kartöflur
Stillið ofninn á 200°C
Innihald:
- ½ kg kartöflur.
- 3 msk olía.
- ½ tsk chili flögur.
- Maldon salt eftir smekk.
Aðferð:
- Þvoið kartöflurnar vel.
- Ég hef alltaf hýðið á kartöflunum.
- Skerið fyrst niður í báta og síðan hvern bát í tvennt.
- Blandið olíunni og kryddinu saman í skál.
- Setjið kartöflunar út í og blandið vel saman.
- Látið í eldfast form.
- Hreyfið öðru hvoru við kartöflunum í ofninum
- Bakið við 200°C í ca 60 mínútur.
Marineraður lax
Stillið ofninn á 230°C
Áætlað fyrir fjóra.
Ég mæli með því að farið sé eftir tímalengdinni bæði í marineringuna og tímanum í ofninum.
Innihald:
- ca 1 kg laxaflak.
Marinering:
- 3 msk. akasíu hunang.
- Safi úr ½ sítrónu.
- 2 msk. glútenlaus tamarinsósa.
- 2 tsk dijon sinnep.
- 1 msk rifinn engiferrót.
Aðferð:
- Skerið laxinn niður í sneiðar, sem þið teljið hæfilega stórar fyrir einn.
- Raðið honum í form.
- Setjið allt sem á að fara í mareringuna í skál og hrærið saman.
- Hellið henni yfir laxinn og látið marinerast í 30 mínútur.
- Þegar laxinn hefur marinerast takið hann þá hverja sneið fyrir sig úr forminu og látið mesta vökvann leka af.
- Ég notaði töng við verkið en það er líka hægt að nota gaffal.
- Raðið laxasneiðunum í eldfast form.
- Setjið laxinn inn í 230°C ofninn og bakið í 5 mínútur.
Á meðan laxinn var að marinerast útbjó ég sósuna og mangó salatið.
Mangó salat
Innihald:
- 1 stk. þroskað mangó.
- ½ stk. chili.
- ½ krukka fetaostur + olía.
Aðferð:
- Flysjið mangóið og skerið það niður í hæfilega bita.
- Skerið chili niður í litla bita.
- Takið sem mest af fræjunum innan úr því.
- Setjið allt í skál.
- Bætið fetaostinum með olíunni saman við.
- Blandið saman.
Fetaosta sósa
Innihald:
- 1 dós 10% sýrður rjómi.
- ½ krukka fetaostur með olíu.
- 3 stk hvítlauks rif.
- Svartur pipar.
Aðferð:
- Setjið allt í blandara og blandið vel saman.
Njótið.