Bakstur, Glútenlaust

Marsarínuterta

21. March, 2016
DSC_0545

Tveimur dögum eftir afmæli eiginmannsins nú í febrúar, bættist í gullakistu okkar hjóna. Lítill fallegur strákhnokki kom í heiminn með hraði. Við vorum aðeins að gæla við að afinn fengi hann í afmælisgjöf. Nei sá stutti vildi sko bara eiga sinn eigin afmælisdag. Svo mikið lá honum á að það var rétt svo að foreldrarnir næðu inn á fæðingardeild. Þannig að nú er hún Hrafntinna litla tveggja ára orðin stóra systir. Og í gullakistunni okkar eru sex molar. Mér finnst við svo ótrúlega rík. Faðmurinn og hjartað stækkar við hvern molann sem bætist við.

Aftur að afmæli eiginmannsins. Marsarínuna buðum við líka upp á í afmæliskaffinu (hún er glútenlaus). þetta er eiginlega framhald frá síðasta bloggi. Ætlaði reyndar ekki að hafa það þannig, en þar sem það eru að koma páskar þá finnst mér nauðsynlegt að baka eins og eina góða tertu til að hafa annað hvort með kaffinu á milli páskaeggjanna eða í eftirrétt. Marsarínan er svo sem engin hollustu terta en heldur engin sykurbomba. Sykurinn sem er í henni er í 70% súkkulaðinu og það sem er í marsipaninu, til að lágmarka sykurinn nota ég sukkrin melis flórsykur. Einnig er hægt að búa til sitt eigið marsipan og er þá uppskrift aftan á flórsykur pokanum.

 Marsarínan finnst mér og minni fjölskyldu algjör sælgætismoli sem toppar góða máltíð.

Marsarínuterta

Hitið ofninn í 180°C

DSC_0509

Innihald:

 • 800 gr. marsipan.
  • Ég nota þetta í rauðu rúllunum.
 • 140 gr. sukkrin melis flórsykur.
 • 4 stk. egg.
 • 50 gr. smjör.
 • 2 msk. kakó.
  • Ég nota hreint lífrænt.
 • 1 tsk. vanilluduft.
  • Ég nota lífrænt.

Aðferð:

 • Rífið marsipanið niður með rifjárni.
 • Bræðið smjör og kakó saman, hrærið.
 • Hrærið saman marsipaninu og sukkrin melis flórsykrinum þar til það hefur blandast vel saman.
 • Bætið eggjunum út í einu og einu og hrærið vel saman.
  • Gott að stoppa vélina á milli og hreinsa spaðann.
 • Bætið smjörinu, kakóinu og vanilluduftinu saman við, hrærið áfram.
 • Hellið blöndunni í tertuform.
  • Ég nota silikonform, ef annars konar form er notað, smyrjið þá formið vel.
   • Formið sem ég nota er 24 x 24 cm.
 • Bakið tertuna í 25- 27 mínútur við 180°C
 • Látið kólna.
 • Berið súkkulaðihjúpinn á tertuna og skreytið með ristuðu möndlukurli.
DSC_0517

Marsipanið rifið niður.

 

DSC_0522

Hrærið saman marsipaninu og sukkrin melis flórsykrinum þar til allt hefur blandast vel saman.

 

DSC_0519

Bræðið smjörið og kakóið saman á meðan verið er að hræra marsipanið.

 

 

DSC_0528

Vel blandað.

 

DSC_0531

Bætið eggjunum út í og hrærið vel saman.

 

Bætið síðan smjörinu og kakóinu út í marsipanið og eggin. Hrærið á meðan.

 

DSC_0536

Hellið í form og bakið í 25 – 27 mínútur.

  

DSC_0540

Kælið, setjið hjúpinn og möndlukurlið á tertuna

Súkkulaðihjúpur

DSC_0542

Innihald:

 • 1 dl. rjómi.
 • 100 gr. dökkt súkkulaði.
  • T.d. suðusúkkulaði 70%.

Aðferð:

 • Hitið rjómann upp að suðu.
 • Bætið súkkulaðinu út í og hrærið þar til allt hefur blandast vel saman.
DSC_0544

Hjúpurinn tilbúinn.

 

 

Ég ber alltaf rjóma fram með tertunni og fæ mér væna rjómaslettu með minni sneið.

DSC_0554

Njótið.

 

 

 

Athugasemdir

athugasemdir

You Might Also Like