Fiskur, Meðlæti, Sósur, Ýmislegt

Ofnbakaður lax með gráðosti, döðlum og gómsætu meðlæti

25. October, 2015
DSC_0733

Sumir réttir eru bara mest uppáhalds. Þessi laxaréttur er í þeim flokki hjá mér og minni fjölskyldu. Ég býð upp á hann við öll möguleg tækifæri og nú í nokkur ár hef ég haft hann á, má segja það í október? það hlýtur að vera í lagi, á annan í jólum. Ef ég er beðin um uppskrift af einhverju sem er bæði mjög gott og auðvelt, gef ég án undantekninga þessa laxa uppskrift. Sumir segja jafnvel að þeir geti ekki haft þennan rétt því þeir borði ekki gráðost. En trúið mér hvort sem fólk borðar alla jafna gráðost eða ei, hefur laxinn þótt ótrúlega góður. Ég luma á nokkrum slíkum sögum. 

Rétturinn varð til fyrir mörgum árum hjá mér. Ég var með matarboð þar sem ég bauð upp á kjúklingabringur með gráðosti og döðlum. Þegar ég var langt komin með eldamennskuna og stutt í að gestirnir komi, rann það upp fyrir mér  að ég hafði ekki gert ráð fyrir mat fyrir mágkonu mína. En hún borðar ekki kjöt. Hvernig gat ég gleymt henni, sérstaklega þar sem hún er mín uppáhalds mágkona. Í smá stressi fór ég að hugsa um hvað ég ætti að bjóða henni upp á. Ekki gat ég látið hana borða eingöngu meðlæti, þó svo að það væri líka mjög gott. Ég rauk með það sama út í næstu búð og keypti það fyrsta sem ég rak augun í, laxaflak. Þegar heim kom, var eina sem mér datt í hug að gera var að smyrja ostinum sem ég notaði á kjúklingabringurnar yfir laxinn. Ég krossaði fingur og vonaði að þetta væri a.m.k. ágætt. En til að gera langa sögu stutta var nánast slegist um laxinn. Hann þótti miklu betri en  kjúklingabringurnar. Þegar ég hugsa mig vel um, held ég bara að kjúklingabringurnar hafi ekki verið eldaðar aftur með gráðostinum. En laxinn aftur á móti aftur og aftur og aftur.

Lax með gráðosti og döðlum

Áætlað fyrir fimm til sex manns

DSC_0720

Innihald:

 • Laxaflak.
  • Ég var með 800 gr. flak
 • Sítrónupipar
 • 1 askja gráðostur.
 • 10 stk. lífrænar döðlur.

Aðferð:

 • Skerið laxaflakið niður í hæfilegar sneiðar.
 • Setjið hann í ofnskúffu.
  • Gott að hafa bökunarpappír í ofnskúffunni.
 • Piprið.
 • Skerið eða klippið döðlurnar niður í sneiðar.
 • Hrærið saman gráðostinum og döðlunum.
 • Smyrjið jafnt yfir laxinn.
 • Bakið við 200°C í 18 mínútur.

DSC_0722

 

Sinneps – hunangs bakaðar kartöflur

Ég miða við ½ kartöflu á mann.

Kartöflurnar finnst mér passa vel með laxi og lamba- og nautakjöti.

DSC_0689

 

Innihald:

 • 3 stk. bökunarkartöflur.
 • 1 kúfuð msk. Dijon sinnep.
 • 1 kúfuð msk. akasíuhunang.
 • Flögusalt.

Aðferð:

 • Þvoið kartöflurnar vel.
 • Skerið eftir endilöngu,
 • Skerið frekar þéttar grunnar rákir í hýðið.
 • Raðið kartöflunum á ofnplötu með sárið niður.
  • Best að hafa smjörpappír á plötunni.
 • Blandið saman sinnepinu og hunanginu.
 • Smyrjið því yfir kartöflurnar.
 • Saltið t.d. með maldon salti.
 • Bakið við 200°C í 55 – 60 mínútur.

DSC_0690

 

Köld sinnepssósa

Innihald:

 • 1 dós sýrður rjómi.
  • Ég nota 10%.
 • 2 tsk dijon sinnep.
 • 1 tsk akasíu hunang.
 • Flögu salt og pipar.

Aðferð:

 • Setjið allt saman í skál og hrærið saman.

Mér finnst best að útbúa sósuna a.m.k. klukkustund áður en ég ber hana á borð. 

 DSC_0708

Mangó salat

DSC_0702

Innihald:

 • 1 stk. mangó.
 • ½  rautt chili.
 • 4 tsk. rifinn engifer.
 • 4 msk. balsamic edik.
 • 4 msk. sesamolía.

Aðferð:

 • Skerið mangóið í bita.
 • Skerið chilíið smátt niður.
 • Setjið í skál.
 • Hrærið saman edikinu, olíunni og engiferinu.
 • Hellið yfir salatið.

DSC_0706

 

 

DSC_0733

Njótið.

 

 

 

 

 

 

 

Athugasemdir

athugasemdir

You Might Also Like