Sumarið er tími grillsins hjá okkur mörgum. Nú verður einhver ósammála mér. Maður getur bara ekki borðað grill í nánast hvert mál. Þess vegna er gott að hafa eitthvað sumarleg, einfalt og gott að grípa í. Og þar kemur pastasalatið sterkt inn. Hvort sem maður á pestóið tilbúið inni í ískáp eða þarf að útbúa það fyrir salatið tekur ekki langan tíma að gera matinn klárann. Því hver svo sem nennir á góðum sumar degi að standa lengi við eldavélina. Við erum að tala um innan við hálftíma. Ég útbý pastasalatið stundum þegar ég eiginlega nenni ekki að elda en langar í eitthvað ótrúlega gott. Fyrir glútengæjan á heimilinu útbý ég salatið úr glútenlausum pastaskrúfum sem ég kaupi í heilsubúðum.
Á meðan pastað er í pottinum, útbý ég til pestóið, sker niður laukinn, og tómatana og legg jafnvel á borð ef ég er mjög rösk.
Pastasalat
Áætlað fyrir fjóra
Ég útbý reglulega sem þýðir vikulega pestó. Eins og sjá má í mörgum uppskriftum hjá mér nota ég það á ýmislegt. Það geymist í allt að tvær vikur í ískáp, hef ekki náð að geyma það lengur. Klárast alltaf. Til að það geymist vel þarf að vera slatti af olíu í krukkunni.
Fyrir rúmu ári var ég alls ekki hrifin af chili. Fannst það allt of sterkt og yfirgnæfandi í matnum. Mér fannst það samt ótrúlega fallegt og keypti það reglulega sem skraut í eldhúsið hjá mér og auk þess skreytti ég líka stundum pakka með því. Lengra náði notkunin ekki. Veit ekki hvað breyttist en nú gæti ég ekki verið án þess í matnum mínum. Það sem meira er ég hef fræin mjög oft með.
Í pestóið nota ég kryddjurtir sem ég rækta sjálf í eldhúsglugganum og í litla matjurtargarðinum mínum.
Pestó
Basilika, steinselja, sólþurrkaðir tómatar, ólívur, chili og hvítlaukur .
Hvað er hægt að kalla þetta pestó?
Frekar stór skammtur
Innihald:
- 1 væn lúka basilika.
- 1 væn lúka steinselja.
- Ef þið eigið ekki steinselju notið þá bara meira af basilikunni.
- 1 dl. sólþurrkaðir tómatar.
- 1 dl. svartar steinlausar ólívur.
- 1 stk. rauður chili.
- Má vera ½. stk.
- Ég skelli honum heilum í.
- Má vera ½. stk.
- 2 stk hvítlauksrif.
- ½ dl. pekan hnetur.
- 1 dl. ólívuolía.
- Eða eftir smekk.
- Salt flögur.
Aðferð:
- Setjið allt hráefnið í matvinnsluvélina nema ólífuólíuna.
- Byrjið að mauka.
- Bætið olíunni smátt og smátt út í og maukið um leið.
- Magnið af olíunni fer eftir því hversu þykkt þið viljið hafa pestóið.
Smekksatriði er hversu gróft fólk vill hafa pestóið. Mér finnst gott að hafa það frekar gróft.
Pastasalat
Áætlað fyrir fjóra fullorðna.
Innihald:
- ½ poki heilhveiti eða spelt pastaskrúfur.
- Ég nota lífrænt.
- Notið glútenlaust pasta fyrir þá sem eru með óþol.
- Ég nota lífrænt.
- 1 stk. rauðlaukur.
- 6 – 8 stk konfekt eða heislutómatar.
- 2 – 2½ dl pestó.
- ½ krukka fetaostur.
- Lítið stykki gráðostur.
- Í stað hans nota sumir í fjölskyldunni t.d. hvítlauks eða paprikuost.
- Parmesanostur.
Aðferð:
- Sjóðið pastað eftir leiðbeiningum á pokanum.
- Skerið rauðlaukinn fínt niður.
- Ég sker hann í þunnar sneiðar.
- Skerið tómatana í tvennt.
Þegar pastað er soðið.
- Blandið pestóinu, rauðlauknum, tómötunum og fetaostinum vel saman við heitt pastað.
- Berið á borð og látið hvern og einn skammta sér gráð og/eða parmesanost.
- Ég hef ólífuolíu á borðinu ef einhver vill bæta olíu á hjá sér.
- Ég bæti á hjá mér.
Stundum hef ég líka rucolasalat í skál og getur fólkið mitt þá dreift því yfir hjá sér.
Það skemmir ekkert að fá sér rauðvínsglas með þessum.
Njótið.