Álegg, Glútenlaust, Grænmetisréttir

Pastasalat með heimagerðu pestói og ostum

24. July, 2015
2015May21_4527

Sumarið er tími grillsins hjá okkur mörgum. Nú verður einhver ósammála mér. Maður getur bara ekki borðað grill í nánast hvert mál. Þess vegna er gott að hafa eitthvað sumarleg, einfalt og gott að grípa í. Og þar kemur pastasalatið sterkt inn. Hvort sem maður á pestóið tilbúið inni í ískáp eða þarf að útbúa það fyrir salatið tekur ekki langan tíma að gera matinn klárann. Því hver svo sem nennir á góðum sumar degi að standa lengi við eldavélina. Við erum að tala um innan við hálftíma. Ég útbý pastasalatið stundum þegar ég eiginlega nenni ekki að elda en langar í eitthvað ótrúlega gott. Fyrir glútengæjan á heimilinu útbý ég salatið úr glútenlausum pastaskrúfum sem ég kaupi í heilsubúðum.

Á meðan pastað er í pottinum, útbý ég til pestóið, sker niður laukinn, og tómatana og legg jafnvel á borð ef ég er mjög rösk.

Pastasalat

Áætlað fyrir fjóra

Ég útbý reglulega sem þýðir vikulega pestó. Eins og sjá má í mörgum uppskriftum hjá mér nota ég það á ýmislegt. Það geymist í allt að tvær vikur í ískáp, hef ekki náð að geyma það lengur. Klárast alltaf. Til að það geymist vel þarf að vera slatti af olíu í krukkunni.

Fyrir rúmu ári var ég alls ekki hrifin af chili. Fannst það allt of sterkt og yfirgnæfandi í matnum. Mér fannst það samt ótrúlega fallegt og keypti það reglulega sem skraut í eldhúsið hjá mér og auk þess skreytti ég líka stundum pakka með því. Lengra náði notkunin ekki. Veit ekki hvað breyttist en nú gæti ég ekki verið án þess í matnum mínum. Það sem meira er ég hef fræin mjög oft með. 

DSC_0847

Í pestóið nota ég kryddjurtir sem ég rækta sjálf í eldhúsglugganum og í litla matjurtargarðinum mínum.

DSC_0837

Pestó

Basilika, steinselja, sólþurrkaðir tómatar, ólívur, chili og hvítlaukur .

Hvað er hægt að kalla þetta pestó?

Frekar stór skammtur 

DSC_0863

Innihald:

 • 1 væn lúka basilika.
 • 1 væn lúka steinselja.
  • Ef þið eigið ekki steinselju notið þá bara meira af basilikunni.
 • 1 dl. sólþurrkaðir tómatar.
 • 1 dl. svartar steinlausar ólívur.
 • 1 stk. rauður chili.
  • Má vera ½. stk.
   • Ég skelli honum heilum í.
 • 2 stk hvítlauksrif.
 • ½ dl. pekan hnetur.
 •  1 dl. ólívuolía.
  • Eða eftir smekk.
 • Salt flögur.

Aðferð:

 • Setjið allt hráefnið í matvinnsluvélina nema ólífuólíuna.
  • Byrjið að mauka.
 • Bætið olíunni smátt og smátt út í og maukið um leið.
  • Magnið af olíunni fer eftir því hversu þykkt þið viljið hafa pestóið.

Smekksatriði er hversu gróft fólk vill hafa pestóið.  Mér finnst gott að hafa það frekar gróft.

DSC_0869

Pastasalat

Áætlað fyrir fjóra fullorðna.

DSC_0883

Innihald:

 • ½ poki heilhveiti eða spelt pastaskrúfur.
  • Ég nota lífrænt.
   • Notið glútenlaust pasta fyrir þá sem eru með óþol.
 • 1 stk. rauðlaukur.
 • 6 – 8 stk konfekt eða heislutómatar.
 • 2 – 2½ dl pestó.
 • ½ krukka fetaostur.
 • Lítið stykki gráðostur.
  • Í stað hans nota sumir í fjölskyldunni t.d. hvítlauks eða paprikuost.
 • Parmesanostur.

Aðferð:

 • Sjóðið pastað eftir leiðbeiningum á pokanum.
 • Skerið rauðlaukinn fínt niður.
  • Ég sker hann í þunnar sneiðar.
 • Skerið tómatana í tvennt.

Þegar pastað er soðið.

 • Blandið pestóinu, rauðlauknum, tómötunum og fetaostinum vel saman við heitt pastað.
 • Berið á borð og látið hvern og einn skammta sér gráð og/eða parmesanost.
 • Ég hef ólífuolíu á borðinu ef einhver vill bæta olíu á hjá sér.
  • Ég bæti á hjá mér.

Stundum hef ég líka rucolasalat í skál og getur fólkið mitt þá dreift því yfir hjá sér.

Það skemmir ekkert að fá sér rauðvínsglas með þessum.

DSC_0894

Njótið.

Athugasemdir

athugasemdir

You Might Also Like