Frá því ég fór að stússast í eldhúsinu hafa matarreglurnar stöðugt verið að breytast. Þá eins og nú studdist ég við hollustu matreiðslubækur. Ein þeirra var í miklu uppáhaldi enda hét hún Hollt og gott. Um daginn datt mér í hug að fara að glugga í hana. Ég varð heldur en ekki undrandi. Kíkti fremst í bókina, hún var gefin út 1986. Sem mér finnst hafa verið í fyrradag. Hollustu uppskriftirnar innihéldu SYKUR – HVEITI – SMJÖRLÍKI – PÚÐURSYKUR í töluverðu magni. Usssss í dag flokkast þetta ekki sem hollusta. Held að það muni ekki breytast í nánustu framtíð.
Mikið hefur nú margt breyst í eldhúsinu hjá mér síðan þá og er enn að breytast. Það gerðist ekki á einni nóttu. Ó nei! Ekkert af ofangreindu finnst í eldhúsinu hjá mér í dag eða hefur fundist í mörg, mörg ár. Ég trúi því staðfastlega og finn á eigin skinni að þau hráefni sem ég nota í dag geri fjölskyldunni gott. Enn er ég að baka kökur og brauð og segi með STOLTI að ég viti nákvæmlega hvað bakkelsið mitt innihaldi.
Uppskriftin
Uppskriftina fékk ég í dagblaði fyrir mörgum, mörgum árum. Skrifaði því miður ekki nafnið á þeim sem gaf hana. En takk fyrir þessa dásamlegu tertu.
Pekanterta
Stillið bakaraofninn á 150°C
Ég baka tertuna í 24 cm kringlóttu tertuformi í 20 mínútur.
Innihald í botninn:
- 5 stk eggjahvítur úr hamingjusömum eggjum.
- 150 g lífrænar döðlur.
- Vatn/ þarf að fljóta yfir döðlurnar.
- 80 g möndlukurl.
Aðferð:
- Setjið döðlurnar í pott og sjóðið í mauk.
- Hrærið og stappið á meðan döðlurnar sjóða.
- Kælið.
- Kurlið möndlurnar.
- Setjið í matvinnsluvél eða saxið með hníf.
- Þá er komið möndlumjöl.
- Aðskiljið eggin og setjið eggjahvíturnar í hrærivélaskálina.
- Stífþeytið eggjahvíturnar. Tekur ca þrjár mínútur.
- Blandið varlega saman við eggjahvíturnar, döðlumaukinu og möndlunum.
- Notið sleikju eða sleif.
- Bakið í 20 mínútur við 150°C.
Karamellan ofan á
Innihald:
- 3 msk. pálmasykur
- 2 msk. akasíuhunang
- 80 g smjör
- 100 ml rjómi eða kókosmjólk
Aðferð:
- Setjið allt innihaldið í pott.
- Sjóðið saman við lágan hita.
- Hrærið í öðru hverju.
- Gætið þess að karmellan sjóði ekki upp úr.
- Tekur ca 20 mínútur.
- Kælið í stutta stund. Þá þykknar karmellan
Ofan á teturna:
- 1 bolli ristaðar pekanhnetur.
Ristið pekanhneturnar á pönnu þar til þær fara að taka lit. Kælið þær í stutta stund.
Hellið karmellunni yfir tertuna og skreytið hana með pekanhnetunum. Mér finnst nánast ómissandi að hafa þeyttan rjóma með.