þegar ég var lítil stelpa í Kópavoginum var ég sjúk í rabarbara. Þar sem ekki var rabarbari í garðinum heima hjá mér var það eina í stöðunni að læðast inn í nærliggjandi garða og næla sér í stöngul. Sumar húsmæðurnar voru ekkert á því að gefa okkur krökkunum stöngul. Því þær vildu sulta úr hverjum einasta, já mikið var borðað af sultu í denn. Þegar ég var komin með gómsætan stöngul í hendina fékk ég nánast fullan bolla af sykri heima hjá mér til að dýfa honum í. Namm þá var sko veisla.
Þar sem að nú er ég orðin stór stelpa og það er ekki enn rabarbari í garðinum hjá mér þarf ég að verða mér út um hann á annan hátt. Það væri frekar vandræðalegt að vera nöppuð við að næla sér í rabarbara úr nærliggjandi görðum. En ég er svo ótrúlega heppin að ein frænkan í fjölskyldunni á stóran rabarbaragarð og það er auðsótt að fá nokkra stöngla hjá henni.
Fyrst smakkaði ég kökuna heima hjá vinafólki og kolféll fyrir henni. Uppskriftin var komin frá mömmu annars húsráðandans en hún er finnsk. Uppskriftina fékk ég á finnsku. Þar sem ég hvorki tala né skil orð í finnsku sló ég uppskiftinni inn í goggle translate. Með þarfir fjölskyldunnar í huga hef ég skipt út mörgum upphaflegu hráefnunum og sett í staðin þau sem ég nota.
Án þess að blikkna bauð ég eitt sinn upp á þessa köku þegar mágur minn og konan hans, sem er Finnsk komu í kaffi til okkar. Hún hafði reyndar aldrei fengið þessa köku í Finnlandi en varð svo hrifin að hún fékk uppskriftina hjá mér. Já á finnsku.
Í Finnlandi er kakan kölluð finnsk rabarbara hvolf kaka, var mér sagt.
Rabarbara og engiferkaramella
Þessi er glútenlaus
Byrjað er á að útbúa karamelluna
Innihald:
- 40 gr. smjör.
- 2 dl. pálmasykur.
- 1 msk. hunang.
- Ég nota akasíuhunang.
- 1 kúfuð msk. ferskt raspað engifer
- 6 dl. þunnt skornar rabarbarasneiðar
Aðferð:
- Smjör og pálmasykur brætt saman við lágan hita.
- Ég stilli á næstlægsta hitann á hellunni hjá mér.
- Bætið rabarbara og engifer út í þegar smjörið og sykurinn fer að freyða.
- Látið malla í ca. 20 – 25 mín. eða þar til blandan verður seigfljótandi.
- Þegar karamellan er tilbúin hellið henni í tertuform.
Deig
Innihald:
- 150 gr. lint smjör
- 2 dl. pálmasykur.
- 3 stk. egg .
- 2 ½ dl. möndlumjöl.
- Ég nota lífrænt.
- 1 tsk. vínsteinslyftiduft.
- 1 tsk. xanthan gum.
- Náttúrlulegt þykkingarefni sem gott er að nota og í sumum tilfellum nauðsynlegt í glútenlausan bakstur.
- 1 msk. ferskt raspað engifer.
- 1 tsk. vanilluduft.
Aðferð:
- Ofninn stilltur á 180 °
- Hrærið saman smjör og pálmasykur þar til það hefur blandast vel saman.
- Bætið einu og einu eggi út í og hrærið vel saman.
- Bætið restinni af hráefnunum saman við og hrærið þar til allt hefur blandast vel saman.
- Dreifið deiginu yfir rababarakaramelluna.
- Bakið við 180° í 35 mínútur.
- Þegar kakan hefur kólnað, hvolfið henni þá á tertudisk.
- Þar sem mér finnst kakan ekkert sérstaklega falleg strái ég t.d. kókosi yfir hana.
Njótið.