Meðlæti, Ýmislegt

Rauðlaukssulta er sælgæti

20. December, 2015
DSC_0140

Ég er frekar mikil jólakona. Finnst ótrúlega gaman að bauka við hitt og þetta fyrir jólin. Halda aðventuboð, jólaboð og útbúa margskonar góðgæti, skreyta og kaupa gjafir, og útbúa jólakort. Ég ætla að opna mig varðandi jólaundirbúninginn á heimilinu þetta árið, en hann er ekki alveg hefðbundinn. Þrátt fyrir að í  ágúst var ég til dæmis búin að undirbúa mig fyrir desember bloggið og kaupa nokkrar jólagjafir. Ég er þessi skipulagða týpa  ætlaði sko að vera snemma í því, sem ég er oftast. Hafði ákveðið að deila með ykkur öllu því matarkyns  sem mér finnst ómissandi um jólin. Já listinn var töluvert langur. Það hvarflaði ekki að mér að eitthvað gæti orðið öðruvísi en undanfarin ár. Þrátt fyrir að dóttir mín ætti von væri á tvíburum og ég amman ætlaði að vera mömmunni til aðstoðar. Ég sá það fyrir mér að á milli gjafa væri ég að bauka í eldhúsinu og blogga um allt þetta jóla, jóla. En það gekk nú ekki alveg eftir. Tvíburarnir fæddust í lok október, pínu stubbar, værir og ofboðslega flottir. Eitthvað hefur verið farið að fenna yfir hjá mér hversu annasamt er að sinna litlum börnum. Ég var/er samt mamman og tengdamamman sem sagði við fullorðnu börnin mín “Til að láta allt ganga þarf bara að skipuleggja sig vel, gera það sem þarf að gera þegar börnin sofa og ganga frá öllu jafn óðum og bla, bla, bla…..” Þetta er ekki alveg svona mamma, reyndi sú yngsta stundum að segja mér. En ég hlustaði ekki.

Sem sé nú eru að koma jól og ég hef ekki útbúið margt af því sem ég var vön að gera. Og hvað gera húsmæður þá. Jú velja og hafna. Ég fór yfir listann í huganum mátti ekki vera að því að skrifa niður.  Hvað fannst mér að mætti ekki missa sig? Jú það var þrennt sem mér fannst bráðnauðsynlegt að eiga um jólin. Númer 1 er ísinn hef bloggað um hann, keypti rjómann í vikunni en er ekki enn farin að búa hann til. Nú sé ég að ég get útbúið ísinn á meðan rauðlaukssultan er að malla. Nr. 2 er rauðlauksultan, hana má bara alls ekki vanta. Nú gæti einhver sagt það sé hægt að kaupa ágætis rauðlaukssultu. Já ég veit það en mér finnst mín bara svo miklu betri en allar aðrar og ætla því að skella í hana í dag. Stundum hef ég smellt krukku af sultunni með í jólapakka.  En Það verður ekki fyrir þessi jól. Rauðlaukssultan finnst mér ómissandi með svo mörgu s.s. jólalambinu, öndinni og pate. Nr. 3 er heimalagað rauðkál, ég er búin að kaupa rauðkálshausinn, hann bíður inni í ískáp. Ég hlýt að finna smugu.

En þar sem það tekur ekki langan tíma að útbúa rauðlauksultuna og ég get örugglega smellt í hana á milli gjafa hjá litlu stubbunum verður hún útbúin í eldhúsinu á Njálsgötunni fyrir jól.

Rauðlaukssulta

Ég útbý venjulega tvöfaldan skammt og þá dugir sultan öll jólin.

Mér finnst púrtvín ekkert sérstaklega gott en kaupi flösku á nokkurra ára fresti og nota það eingöngu í lauksultuna.

DSC_0100

Innihald:

 • 500 gr rauðlaukur.
 • 2 msk. olía.
 • ½ krukka bláberjasulta.
  • Ég nota sultuna í löngu krukkunum, hún er án viðbæts sykurs.
 • 2 dl. vatn.
 • ½ dl púrtvín.
  • Það má sleppa því , en ef þið eigið það heima endilega notið það.
 • 2 msk. balsamedik.
 • Flögusalt og pipar.

Aðferð:

 • Afhýðið laukinn og skerið hann í tvennt og síðan í þunnar sneiðar.
 • Setjið laukinn og olíuna í pott og steikið við lágan  hita í ca 4 – 5 mínútur.
  • Eða þar til laukurinn verður bleikleitur.
 • Bætið restinni af hráefnunum í pottinn og látið krauma við lágan hita í eina klukkustund.
  • Á eldavélinni minni eru sex stillingar, ég stilli á einn.
 • Hrærið í öðru hverju.
DSC_0114

Steikið laukinn þar til hann verður bleikleitur.

 

DSC_0131

Látið malla í eina klukkustund.

 

DSC_0140

Bíður jólanna.

DSC_0143

Gleðilega hátíð og njótið.

Athugasemdir

athugasemdir

You Might Also Like