Um mig

IMG_1207Um mig er það helst að segja. Ég heiti Elín Traustadóttir er grunnskólakennari, rúmlega miðaldra, gift Rúnari mínum Björgvinssyni. Við erum miðbæjarfólk og búum þar í eldgömlu bárujárnshúsi. Börnin okkar eru fjögur, öll uppkomin, tvö tengdabörn og þrjú barnabörn.
Í fjöldamörg ár hef ég starfað sem grunnskólakennari en í vetur tók ég mér leyfi frá kennslu. Þegar ég tók ákvörðunina fannst mér að ég yrði að gera eitthvað nýtt og spennandi og kanna ókunnar slóðir. Leiðin sem ég valdi er þetta blogg.
Ég hef endalaus áhugamál. Eitt af þeim er að stússast í eldhúsinu og matreiða hollan og góðan mat, fyrir fjölskylduna okkar. Sem betur fer kemur hún mjög oft og borðar með okkur. Það sem einkennir eldamennskuna hjá mér er að allt sem ég geri er einfalt, tekur ekki langan tíma, allir geta eldað það og ég nota töluvert lífrænt. Mér finnst eldamennskan ekki ólík kennslu, það sem þú matreiðir þarf að næra bæði sál og líkama.
Nafnið á síðunni kom til mín þegar ég var að hugsa til þess þegar ég var lítil stelpa í Kópavoginum. Í minningunni vorum við krakkarnir alltaf úti í allskonar leikjum. Oftar en ekki þegar leikar stóðu sem hæst hrópaði einhver mamman úr eldhúsglugganum KOMDU AÐ BORÐA! Var þá stokkið af stað inn að borða og ákveðið að halda áfram eftir matinn.