Bakstur, Kjúklingur, Ýmislegt

Kjúklingalæri, ristað bygg, raida sósa, nanbrauð

6. February, 2015

krydd Það er eitthvað hjá mér með mat og minningu um sumarfrí þessa dagana. Ilmurinn sem verður í eldhúsinu þegar þessi kjúklingaréttur er eldaður dregur mig vel áleiðis til Marokkó. Ekki að ég þekki Marokkó út og inn, það er af og frá. Eða að ég hafi fengið þennan rétt þar.  Held bara að það sé ilmurinn af kryddunum sem eru í honum. Nákvæmlega þennan krydd ilm fann ég á kryddmarkaði í Marokkó.

Fyrir langa löngu fórum  við fjölskyldan í frí til Costa del sol. Eins og gengur var boðið upp á margskonar skoðunarferðir. Ein þeirra var ferð til Marokkó. Mér fannst ótrúlega spennandi að geta farið til Afríku. Á þessum tíma hafði ég ekki farið á svo framandi slóðir. Ég vildi ekki fyrir mitt litla líf missa af þessari ferð. Við fórum. Fararstjórarnir lögðu okkur lífsreglurnar. Það mátti alls ekki kaupa neitt af sölumönnum úti á götu, ég man ekki  hvað gæti gerst þá, ekki taka myndir af fólkinu, varla mátti horfa á það og ég veit ekki hvað og hvað. Ég var orðin frekar stressuð yfir því að hafa ákveðið að fara í þessa hættuför. Þar sem við vorum leidd í gegnum gömlu borgina fór ég ekki alveg eftir reglunum. Ég horfði vel og vandlega í kringum mig og varð heilluð af mannlífinu á götunum. Ég sá meðal annars konu elda við opinn eld. Á eldinum var einhvers konar pottur með strítulaga loki sem myndaði stromp. Gufan leið upp úr strompinum. Heillandi! Forvitni mín var vakin. Þó svo að ég vissi ekki hvað væri eldað í þessum potti, langaði mig til að eignast hann. Við gengum framhjá sölumanni sem var að selja slíka potta. Átti ég að stoppa og kaupa? Þar sem ég er oftast mjög hlýðin, þorði ég alls ekki að hunsa fyrirmæli fararsjórana og kaupa pott. En mikið sá ég eftir því.kjuklingur

Stuttu eftir að við komum heim var matreiðsluþáttur í sjónvarpinu sem var tekinn upp í Marokkó. Þar var verið að elda í þessum potti sem ég vissi nú að nefndist tangine. Þátturinn vakti aftur upp löngun mína. Ég hafði séð tangine í búðum hér heima en mér fannst ég verða að eignast eina slíka frá Marokkó. Allt annað væri plat.

Tíminn leið.

Dag einn tilkynnti sú elsta mér að hún væri á leið til Costa del sol. Við þessa frétt lyftist á mér brúnin. Að sjálfsögðu spurði ég hvort hún ætlaði í þessa skoðunarferð til Marokkó? Það stóð til. Þar sem ég er mamma hennar og veit að hún fer ekki alltaf eftir öllum reglum, lét ég slag standa og bað hana að kaupa eina tangine fyrir mig. Hún var meira en til í það.

Heim kom hún með þessa fallegu tangine og vænan slatta af saffran. Hún sagði mér að þetta hefði verið aðeins meira en að segja það. Hún keypti eitt stykki tangine snemma morguns, það var ekkert mál. En nú var hún komin með þennan gullmola í hendurnar og varð því að koma honum heilum alla leið heim.  Allan daginn í sjóðandi hita var hún með tangine í fanginu og þorði ekki að sleppa af henni hendinni alla ferðina. Mikið lagt á sig fyrir mömmuna.

Ekki var allt búið enn. Nú átti eftir að koma gullmolanum alla leið til Íslands. Ekki vildi sú elsta taka sénsinn á að láta hann í ferðatöskuna, því eins og allir vita er ekki farið mjúkum höndum um þær í flugi. Þá var ekki annað eftir en að taka tangine eina ferðina enn í fangið og það var gert. Og til Íslands kom hún heil og hefur veitt mikla ánægju í eldhúsinu á Njálsgötunni.
kjuklingur a diski

 

 

Auðvitað þarf ekki tangine til að elda þennan kjúklingarétt. Eldfast form eða ofnskúffa duga fullkomnlega.

 Kjúklingur uppskrift

Fyrir fjóra

Í fjölskyldunni hjá mér borðum við konurnar 1 ½ læri en karlarnir tvö og ef þeir eru mjög svangir þrjú.

Innihald:

 • 7 – 9 stk. kjúklingalæri.
 • 5 msk. ólívuolía
 • ½ tsk kanill.
 • Ca 2 tsk saltflögur.
 • Pipar.
 • 1 heill geiralaus hvítlaukur.
 • 2 msk. röspuð engiferrót.
 • 2 cm röspuð túrmerik rót.
  • Maður verður mjög gulur á fingrunum af túrmerikinu.
 • 2 tsk. paprikuduft.
 • 1 stk. lífræn stítróna.
 • 100 g lífrænar döðlur.
 • ½ krukka ólívur.

Rétturinn verður enn betri ef kjúklingalærin fá að marinerast  í nokkra klukkutíma.

Aðferð:

 • Raðið kjúklingalærunum í eldfastform.
 • Blandið öllu kryddinu saman við olíuna.
 • Smyrjið kryddblöndunni yfir kjúklingalærinn.
 • Skerið niður sítrónuna, döðlurnar og og ólívurnar.
 • Dreifið yfir réttinn.
 • Bakið réttinn við 180°C í 50 mínútur.

Raida sósa 

Innihald:

 • 1 dós hrein lífræn jógúrt.
 • ½ gúrka.
 • 1 ½ msk ferskur sítrónusafi.

Aðferð:

 • Gúrkan afhýdd og röspuð niður.
 • Gúrkan sett í sigti á vökvinn látin drjúpa af henni.
  • Til að flýta fyrir þrýsti ég ofan á röspuðu gúrkuna með eldhúspappír.
 • Gúrkunni og sítrónusafanum blandað saman við jógúrtina.

 

Ristað bygg var í einni uppskriftinni á súrdeigsbrauðnámskeiðinu sem ég fór á fyrir stuttu.  Mér fannst það smakkast ótrúlega vel og hugsaði sem svo að það gæti smellpassað sem meðlæti með mat. Sem það og gerði.  Ég er ekki sérstaklega góð í að tjá mig um bragðkeim af mat. En ég er ekki frá því að ég finndi hnetukeim af ristaða bygginu. 

Ristað bygg

Fyrst ristað síðan soðið.

Innihald:

 • 100 gr bygg. Ég notaði lífrænt íslenskt.
 • 200 gr vatn.

Aðferð:

 • Stillið ofninn á 160°C.
 • Byggið sett í ofnskúffu.
 • Haft inni í 20 mínútur.

Þá er að sjóða byggið.

 •  Sjóðið 200 gr af vatni.
 • Þegar vatnið er farið að sjóða bætið bygginu út í .
 • Lækkið hitann (hafið lægsta straum) undir pottinum.
 • Látið malla í 40 – 45 mínútur.
 • Hrærið í öðru hverju.

 

Ef ég á að vera alveg hreinskilin þá er/var þetta uppskrift af nanbrauði. Ég hef bakað það ótal sinnum og alltaf farið eftir þessari uppskrift og fengið þessi fínu flötu nanbrauð. Að þessu sinni varð þetta svo meira nanbollubrauð. Ég veit svo sem af hverju það gerðist. Ég læt það bara flakka.  Anna Fjóla ljósmyndari kunningjakona mín var að ljósmynda fyrir mig og gefa mér góð ljósmyndaráð. Eins og gengur þegar tvær konur eru saman komnar í eldhúsi sem báðar hafa mjög gaman að tala, æddi tíminn áfram. Deigið fékk því töluvert meiri lyftingu en ég gef upp í uppskriftinni. Töluvert merkir víst á annan tíma. Þannig að ef þið viljið nanbollubrauð þá er bara að gleyma deiginu. En ef þið ætlið að baka nanbrauð þá farið endilega eftir uppskriftinni.

Dætur mínar og mágkona voru í mat hjá mér. Ég sagði ekki orð um að bollurnar ættu að vera nanabrauð. Ég var meira að segja að hugsa um að sleppa nanbollubrauðinu á blogginu. Eftir að dætur mínar og mágkona dásömuðu það og höfðu á orði að þær hefðu aldrei fengið þetta góða brauð áður hjá mér. Ákvað ég bara að láta það flakka.

 

Nanbrauðbollur uppskrift

16 stykki

Innihald:

 • 200 ml volg (fingur heit)  mjólk.
 • 1 msk þurrger.
 • ½ tsk pálmasykur.
 • 1 tsk salt.

Öllu blandað saman og látið bíða í 5 mínútur.

 • 550 gr gróft spelt.
 • 2 tsk lyftiduft.
 • 1 tsk garam masala-krydd.
 • 4 msk ólífuolía.
 • 1 dós lífræn jógúrt.

Blandað saman og gerblöndunni bætt út í.

Aðferð:

 • Allt hráefnið sett í skál.
 • Deigið er fyrst hrært með sleif og síðan hnoðað í höndunum.
 • Deigið sett á hnoðmottuna og klárað að hnoða.
 • Búin til pylsa úr deiginu.
 • Skorið niður og gerðar kúlur á stærð við stóra tómata.
 • Kúlurnar flattar út. Ég ýti á þær með lófanum.
 •  Látið hefast undir votu viskastykki í 10 mínútur.
 • Bakað við 210°C í 10 mínútur.

 

Ofan á eftir bakstur

 • 1 dl olía.
 • 1 tsk maldonsalt.
 • 1 stk marin hvítlauksrif. Má vera meira.

Blandað saman og penslað ofan á brauðin strax eftir bakstur.

Njótið vel hvort sem þið eldið og bakið þetta allt eða kannski bara kjúklinginn.

Athugasemdir

athugasemdir

You Might Also Like