Grænmetisréttir

Grænmetisbaka með sætum kartöflum, spínati og fetaosti

15. January, 2015

Mamma hvenær ætlar þú eiginlega að setja inn uppskrift af böku? Spurði sú yngsta mig. Ég bara er ekki búin að ákveða það enn, svaraði ég frekar undrandi á spurningunni. Sérstaklega þar sem ég var ég eingöngu búin að setja inn þrjár uppskriftir. Já en þú bara verður að setja hana fljótlega inn. Þar sem ég veit að sú yngsta hefur engan sérstakan áhuga á eldamennsku, en aftur á móti finnast henni bökur góðar, fylltist ég forvitni á þessum böku áhuga og spurði hverju það sætti. Svarið sem ég fékk kom mér svolítið á óvart. Hana langaði bara til að gera böku heima hjá sér. Þar sem áhugi var til staðar, stökk ég að sjálfsögðu til. Hvað gerir maður ekki fyrir börnin sín, sama á hvaða aldri þau eru? Nánast allt.

 Það sem er svo skemmtilegt við bökur er að það er gaman að búa þær til, þær eru ótrúlegar fallegar á borði, hægt að nota nánast hvað sem er í fyllinguna og ekki skemmir það fyrir hvað þær eru góðar.

Ég hef boðið upp á bökur í veislum. Þá útbý mismunandi fyllingar t.d. lauk- sveppa eða grænmetisfyllingu, bý til gott salat og kalda sósu með. Fullkomin veisla og ekki svo kostnaðarsöm.

Baka a bordi

Fyrst þegar ég fór að gera bökudeig heppnaðist það ekki alltaf fullkomnlega eins og gerist og gengur. Ég vildi ná góðum tökum á bökugerðinni og hélt því áfram að æfa mig. Loks tókst það þegar ég datt niður á þessa samsetningu af bökubotni, hann hefur aldrei misheppnast hjá mér. Nú gæti einhver haldið að það væri óttalegt vesen að útbúa böku. Ég segi nei, það er ekkert mál. Bara að byrja.

Að gamni mínu tók ég tímann sem það tók að útbúa matinn og koma honum á borðið. Ég byrjaði kl 18:43 og maturinn var kominn á borðið kl 20:07.

Uppskrift

Bakan dugir fyrir fimm manns á mínu heimili. Einn karl og fjórar konur. Karlinn tekur síðan með sér afganginn (eina sneið) í nesti  daginn eftir.

Áður en ég eignaðist bökuformið notaði ég ýmist tertuform eða eldfastmót við bökugerðina. Ég verð þó að viðurkenna að mér finnst ótrúlega smart að bera bökuna á borð í bökuformi.

Stillið ofninn á 180°C og látið hann hitna á meðan þið eruð að útbúa bökuna. Hún er  bökuð í 55 – 60 mínútur.

Baka 1

Búið að vigta allt í botninn.

Innihald:

Botn:

  • 225 g gróft spelt.
  • 50 g kalt smjör skorið í teninga.
  • 1 stk hamingjusamt egg.
  • 1 tsk salt  (ég notaði íslenskt flögusalt).
  • ½ dl kalt vatn.

 

Aðferð:

Baka 2

Vélin sér um að hnoða.

 

Mér finnst best að byrja á botninum og ég hnoða hann alltaf í hrærivélinni. Á meðan vélin er að vinna útbý ég fyllinguna.

  • Setjið allt sem á að fara í botninn  í hrærivélaskálina og hnoðið.
    • Það tekur smá tíma.
  • Deigið er fullhnoðað þegar smjörið hefur blandast vel.
  • Það þarf alltaf að klára að hnoða deigið í höndunum.
  • Stráið 1 msk af spelti á hnoðmottuna og klárið að hnoða.
Hnodmotta

Og þá er að fletja deigið út.

Ég nota alltaf hnoðmottu vegna þess að mér finnst svo leiðinlegt að þrífa hveitið af borðinu. Ef þið eigið ekki hnoðmottu bleytið viskastykki, leggið það á borðið og  setjið smjörpappír yfir það. Þá eruð þið komin með þessa fínu hnoðmottu.

  • Fletjið deigið út með kökukefli.
  • Leggið það í bökuformið og þrýstið deiginu að köntum formsins.
  • Snyrtið með því að skera það deig sem stendur upp úr forminu.
  • Pikkið í deigið með gaffli.pikkud baka

Fylling:

  • 1 stk sæt kartafla.
  • ½ poki spínat (100 g).
  • 100 g rifinn ostur, notið endilega ostafganga en ég notaði rifinn mozzarella ost.
  • ½ krukka feta ostur án olíunnar.
  • ½ l rjómi eða 1 dós kókosmjólk.
  • 2 stk hamingjusöm egg. Ef þið viljið hafa fyllinguna líkari eggjaköku bætið þá 2 eggjum við.
  • 1 kúfuð msk grænmetiskraftur frá Sollu.
  • 2 pressuð hvítlauksrif.
  • Salt og pipar.

Aðferð:

  • Skrælið sætu kartöfluna og skerið í teninga.
  • Blandið saman rjómanum, eggjunum og kryddinu.
  • Raðið í formið. Mér finnst það koma best út að fara eftir þessari röð:A leid i ofninn
  1. Spínat í botninn.
  2. Sæta kartaflan yfir.
  3. Ostinum dreift yfir.
  4. Rjómablandinu hellt yfir.

Bakað við 180°C  í 55 – 60 mínútur. Ég hef alltaf stillt á meiri undirhita.

Ef bakan fer að dökkna of mikið setjið þá smjörpappír yfir hana.

Góða skemmtun.

Athugasemdir

athugasemdir

You Might Also Like