Ég var ein af þeim sem var mjög ginkeypt fyrir öllum megrunarkúrum sem ég heyrði og las um. Allir þessir kúrar virtust virka vel og gjörbreyta lífi fólks. Mér er ómögulegt að telja upp allt það sem ég hef prófað í gegnum tíðina. Sumt svo fáránlegt að ég hreinlega roðna þegar ég hugsa um það. Ég hef ákveðið að líta á þessar tilraunir mínar sem jákvæða reynslu og mér finnst ég hafa lært töluvert af þeim. Það sem stendur upp úr er að ég er hætt í kúrum. Verð þó stundum svolítið hrædd um að ég sé að missa að hinum eina sanna kúr sem virki. Hristi það fljótt af mér og held mig við þá ákvörðun sem ég hef valið. Sem er að borða fjölbreyttan mat sem ég tel hollan, eldaðan frá grunni og úr hráefni sem ég tel gott.
Í vikunni var ég á fyrirlestri í Hreyfingu um matarÆÐI hjá Teiti Guðmundssyni lækni. Þar kom meðal annars fram að gott væri að borða fiskmeti a.m.k. þrisvar í viku. Ég næ því sjaldnast, en er oftast með fisk tvisvar í viku. Ég er dugleg að prófa allskonar fiskrétti. Suma elda ég bara einu sinni, aðra aftur og aftur. Þessi réttur er einn þeirra.
Uppskriftirnar
Rétturinn er áætlaður fyrir fjóra fullorðna
Ég bar réttinn fram með ofnbökuðum sætum kartöflum með parmesanosti, limesósu og salati.
Innihald:
- 1200 g þorskflök
- 1/2 – 1 stk chili
- 3 stk. hvítlauksrif
- 1 bolli malaðar möndlur
- 2 msk. olía
- Salt og pipar
Aðferð:
- Stillið ofninn á 200°C
- Skerið þorskflökin í hæfilega stóra bita og raðið þeim í eldfast form.
- Saltið og piprið
- Saxið chili og hvítlauk smátt.
- Saxið möndlurnar eða setjið í matvinnsluvél. Mér finnst best að hafa þær svolítið grófar.
- Blandið saman í skál: möndlunum, chili, hvítlauknum og olíunni.
- Dreifið yfir þorskflökin.
- Bakið í tuttugu mínútur.
Limesósa
Innihald:
- 1 dós sýrður rjómi. Ég nota 10%
- 1/2 lime
- 1 kúfuð msk akasíu hunang
- Salt og pipar
Aðferð:
- Setjið sýrða rjómann, hunangið og kryddið í skál og hrærið.
- Kreistið safann úr lime út í hrærið.
- Tilbúin.
Segja má að mér finnist sætar kartöflur vandræðalega góðar, ég þarf virkilega að hemja mig þegar ég er með þær í matinn.
Bakaðar sætar kartöflur
Innihald:
- 2 meðalstórar sætar kartöflur
- 2 msk olía
- 40 g raspaður parmesanostur . Má sleppa en gerir gott enn betra.
- Salt og pipar.
Aðferð:
- Skerið sætu kartöflurnar niður í strimla. Ég tek hýðið ekki af.
- Blandið olíunni, ostinum og kryddinu í skál.
- Bætið sætu kartöflunum út í og blandið vel saman.
- Bakið við 200°C í 40 – 45 mínútur
Rúnar útbjó salat úr því sem til var í ískápnum.
Hrafntinnu fannst fiskurinn mjög góður og vildi meira og meira.