Fiskur, Súpur

Fiskisúpa með bleikju og rækjum

17. October, 2015
DSC_0661

Fljótlega eftir að við fjölskyldan fluttum á Njálsgötuna tókum við upp á því að hafa opið hús á menningarnótt og bjóða vinum okkar upp á menningarsúpu. Menningarsúpa hvernig súpa er það nú?  Það er bara einhver uppáhalds súpa sem maður bíður upp á við menningarleg tækifæri. Við undirbúningin lagðist fjölskyldan öll á eitt. Súpa var útbúin í risapottum, bakaðir staflar af brauðum og búið til pestó og hummus, magnið sem gert var fór bara eftir tilfinningu okkar hverju sinni. Það var eins og það léku galdrar yfir þessu degi hjá okkur. Sama hversu margir gestir komu, var alltaf passlega mikil súpa, nóg af brauði, diskum og glösum. Og alltaf var pláss fyrir alla gestina.

Þegar boðið var í menningarsúpuna buðu fjölskyldumeðlimir vinum sínum og vinum vina sinna. Því ekki má aðskilja fólk á þessum skemmtilega degi. Menningarsúpuna héldum við í fimm ár, hefðum örugglega gert það lengur ef húsfrúin hefði ekki farið að skrölta í 10 km. hlaupinu að morgni menningarnætur. Öllum þótti okkur þetta ótrúlega skemmtileg uppákoma, við kynntumst vinum vina og vinum vina barnanna okkar. Öll höfðum við mikla ánægju af deginum en húsbóndanum á heimilinu og þeirri elstu fannst þetta eiginlega bara vera skemmtilegasti dagur ársins.

Einhver gæti kannast við þessa súpu, en þá kannski sem laxa og rækjusúpu. Fyrir utan að hafa komist á þann stall hjá okkur fjölskyldunni að vera menningarsúpa, fannst mér hún ætti líka heima á síðum Vikunnar þegar leitað var til mín  sem matgæðings.

Fiskisúpa

Bleikju og rækjusúpa

DSC_0609

Upphaflega átti þetta að vera laxa og rækjusúpa. Þegar ég fór í búðina og ætlaði að kaupa lax kom í ljós að hann var hvergi til í nágrenni við mig. Nú voru góð ráð dýr. Átti ég að hætta við súpuna? Nei, það vildi ég alls ekki, þar sem allt annað var tilbúið.  Ætlaði bara að nota annan fisk.  Rak ég þá ekki augun í þessa fínu bleikju og ákvað á staðnum að nota hana í stað laxsins. Ég sé sko alls ekki eftir því.

Stundum hef ég líka notað hörpudisk, humar, þorskhnakka eða bara þann fisk sem mér dettur í hug í súpuna.

Ég reyndi að roðhreinsa bleikjuna en hún tættist bara hjá mér og hafði ég því roðið á.

DSC_0624

Innihald:

 • 800 gr. bleikja og rækjur
 • 1 stk. laukur.
 • 3 stk. hvítlauksrif.
 • 3 tsk. karrý.
 • 1 msk. ólívuolía.
 • 3 msk. creole kryddblanda.
  • Frá pottagöldrum.
 • 1 stk. mango.
 • 1 dós niðursoðnir saxaðir tómatar.
  • Ég nota lífræna.
 • ½ l. fiskisoð.
  • Vatn + 2 fiskiteningar.
 • 2 dósir kókosmjólk.
  • Ég nota lífræna.

Ofan á súpuna:

 • Ferskt kóriander eða steinselja og ristaðar kókosflögur.

Aðferð:

DSC_0635

Mango og laukur skorið frekar smátt.

DSC_0639

Laukurinn kraumar í olíu og karrý

 • Skerið laukinn, hvítlaukinn og mangóið frekar smátt.
 • Setjið olíuna og karrýið í pott og hitið saman við lágan hita í eina til tvær mínútur.
  • Karrýið á aðeins að fara að brúnast.
 • Bætið laukunum saman við, látið malla þar til laukurinn verður glær.
  • Tekur ca. fimm mínútur.
 • Setjið fiskisoðið í pottinn.
 • Bætið öllu nema fiskinum og því sem á að setja ofan á súpuna saman við.
 • Hrærið öðru hverju á meðan suðan er að koma upp.
 • Slökkvið undir pottinum.
 • Saltið og piprið eftir smekk.
 • Bætið fiskinum saman við.
  • Fyrst bleikjunni, látið standa í ca 3 mínútur.
 • Rækjunum er bætt í um leið og súpan er borin fram.
 • Berið fram með ristuðum kókosflögum, kóriander eða steinselju.

Hver og einn dreifir kókosflögunum og fersku kryddi yfir súpu sína. 

DSC_0661

Oftast baka ég brauð eða brauðbollur sem ég ber fram með súpunni en þó kemur það fyrir að ég kaupi eitthvað fallegt og gott súrdeigsbrauð.

Njótið.

 

 

 

Athugasemdir

athugasemdir

You Might Also Like