Grænmetisréttir, Kjúklingur, Ýmislegt

Tortillur, kraftmikill kjúklingur, salsa, guacamole, hummus, hægelduð paprika og …..

21. March, 2015
DSC_0088

Ég tel mig vera ótrúlega heppna að fá að tilheyra bókaklúbb. Fyrir um það bil þremur árum fékk ég boð á facebook um að ganga í bókaklúbb. Auðvitað stökk ég á það og skráði mig með því sama. Klúbburinn samanstendur eingöngu af konum. Lára bókavinkona sendi út boð til kvenna sem hún þekkti og  vissi að læsu sér til  yndis. Takk Lára fyrir að bjóða mér. Einu sinni í mánuði hittumst við, oftast á kaffihúsi, fáum okkur að borða og jafnvel vínglas með og ræðum vítt og breytt um bók mánaðarins. Klúbburinn okkar hlaut nafnið Bókaklúbburinn Óskar. Einhverjum kann að þykja það undarlegt nafn á kvennabókaklúbb. En það er ekki svo í ljósi þess að í tvö ár kölluðum við klúbbinn okkar bókaklúbbur óskar eftir nafni.  Þannig að þegar loks var ákveðið að kjósa nafn á klúbbinn í leynilegri kosningu vann nafnið Bókaklúbburinn Óskar með yfirgnæfandi meirihluta atkvæða. Eitt að því sem mér finnst svo frábært við að vera í bókaklúbb er að þá les ég líka bækur sem ég hefði annars ekki lesið og kynnist upplifun annarra á bókum.

Febrúar bókin okkar var Kryddlegin hjörtu eftir Mexikönsku skáldkonuna Lauru Esquivel. Hver kafli í bókinni hefst á dásamlega töfrandi mataruppskrift. Til að gera langa sögu stutta fjallar bókin meðal annara um Titu sem er yngst þriggja systra. Frá fæðingu var hún að mestu alin upp í eldhúsinu af eldabusku heimilisins. Tita kynnist töfrum eldamennskurnar í gegnum hana. Þar sem Tita var yngst átti hún ekki að fá að giftast, hennar hlutverk  í lífinu var að hugsa um móður sína. Það var ekki endilega það sem Tita hefði viljað. Ástin logaði í brjósti hennar en hún hafði ekkert val. Í eldhúsinu fann Tita farveg fyrir ástríður sínar í gegnum eldamennskuna. Tilfinningar hennar og þrár fylltu matinn töfrum sem allir sem borðuðu hann fundu mjög vel fyrir.DSC_0088

Þar sem ég átti að stjórna febrúarfundinum og elska að gefa fólki að borða fannst mér tilvalið að bjóða bókavinkonum mínum í mat til mín. Áður en ég hafði lesið bókina hafði ég hugsað mér að elda eina af uppskriftum bókarinnar. Ég verð þó að viðurkenna það hér og nú eftir að hafa pælt í gegnum uppskriftirnar fannst mér þær bæði tímafrekar og heldur flóknar. Nú voru góð ráð dýr. Ég var búin að tilkynna það með margra mánaða fyrirvara að maturinn ætti að vera unnin upp úr bókinni. Hvað átti ég að gera? Eftir smá bollaleggingar ákvað ég að bjarga mér fyrir horn og bjóða upp á mat af bókarkápunni.

Þrátt fyrir að það væri band brjálað veður og allt meira og minna ófært, þriðjudaginn sem bókaklúbburinn átti að vera, reyndi ég að vera mjög yfirveguð yfir matseldinni. Ekki vildi ég að óveðurs tilfinningar mínar þennan dag hlypu í matinn og eitthvað ægilegt kæmi fyrir bókavinkonur mínar.

Uppskriftir

Mexíkóskt matarboð fyrir átta konur sem voru undir töfrum Kryddleginna hjarta.

Mér finnst ótrúlega gaman að bjóða upp á mat sem gestirnir sjá um að raða saman sjálfir.

Það sem ég útbjó ekki sjálf og setti aðeins í skálar.

  • Grófar tortillur.
    • Gerið ráð fyrir tveimur á mann.
    • Hitið í ofni á 210°C í 2 mínútur.
  • 2 dósir sýrður rjómi.
  • 1 poki rifinn ostur.
    • Eða 200 g
  • 1 poki blandað lífrænt veislusalat.
  • 1 – 2 stk rauðlaukar.
    • Niðurskornir.
  • 1 stk súkkini.
    • Rifið niður í strimla.
  • 2 dl ósoðin hýðishrísgrjón.
    • Sjóðið samkæmt leiðbeiningum.
  • Suður amerískt rauðvín.

 Kjúklingur

heitur kjuklingur

 

Innihald:

  • 1 bakki úrbeinuð kjúklingalæri.
  • 2 msk cumin.
  • 1 msk paprikuduft.
  • 1 msk maldon salt.
  • 3 stk hvítlauksrif.

Aðferð:

Fyrir tilviljun komst ég að því það er svo miklu betra að láta kjúklinginn liggja í kryddinu í a.m.k. sólarhring.

  • Skerið kjúklingalærin í litla bita.
    • Setjið í skál
  • Ristið cuminfræin á pönnu.
    • Tekur 2 mínútur.
    • Setjið í mortel og myljið.
  • Blandið paprikunni og saltinu saman við.
  • Skerið hvítlaukinn niður í litla bita.
  • Blandið kryddinu saman við kjúklinginn.
    • Lokið skálinni og geymið inni í ískáp í sólarhring.
    • Steikið á pönnu.
    • Tekur í mesta lagi 4 mínútur.

Hummus

DSC_0054

Innihald:

  • 1 krukka tilbúnar kjúklingabaunir
    • Ég notaði lífrænar.
  • ½ bolli sólþurrkaðir tómatar.
  • ½ dl ólífuolía.
    • Má vera meira.
  • 2 stk hvítlauksrif.
  • 3 msk tahini.
  • 1 msk tamari sósa.
  • 1 tsk salt.
  • ½ tsk cumin duft.
  • cayenne pipar.
    • Mjög lítið eða eins og sagt er framan á hnífsoddi.
  • ½ sítróna.
  • ½ appelsína.

DSC_0059

Aðferð:

  • Hellið kjúklingabaununum í sigti og skolið vel.
  • Allt neman ólífuolían sett í matvinnsluvél og blandað vel saman.
  • Hellið olíunni saman við á meðan vélin er að vinna.
    • Ef þið viljið hafa hummusinn þynnri bætið þá meiri olíu saman við.

 

Tómat salsa

DSC_0064

Innihald:

  • 6 stk meðalstórir tómatar.
  • 1 stk rauðlaukur.
  • 2 stk hvítlauksrif.
  • 1 stk ferskur rauður chilli.
  • ½ lime.
  • 2 matskeiðar ólífuolía.
  • Salt og svartur pipar

Salsa

Aðferð:

  • Skerið tómatana rauðlaukinn og chillið fínt niður.
    • Setjið saman í skál.
  • Kreystið lime yfir.
  • Kryddið með salti og svörtum pipar.
  • Bætið olíunni við.
  • Lokið skálinni og látið standa í um 30 mínútur við stofuhita.

Hægelduð paprika

Hageldurd paprika

Stillið ofninn á 120°C á meðan verið er að undirbúa.

Innihald:

  • 4 stk rauðar paprikur.
  • 1 msk maldon salt.
  • ½ dl olífuolía.

 

Aðferð:

  • Þvoið paprikuna.
  • Skerið í tvennt og hreinsið fræin innan úr.
  • Skerið niður.
    • Ég skar hana fyrst í tvennt, síðan hvorn helming í sex parta.
  • Raðið í eldfast fat.
  • Hellið olíunni yfir.
  • Saltið.
  • Bakið við 120°C í 2 klukkustundir.
    • Það þarf ekkert að hugsa um hana á meðan.

Paprika

Guacamole

Ég nota matvinnsluvél en ef hún er ekki til staðar er hægt að stappa með gaffli.

Til að ekki komi leiðinlegur litur (svarbrúnn) á guacamole útbý ég það rétt áður en ég ber það á borð.

Innihald:

  • 6 stk lítil vel þroskuð avakado
  • ½ sítróna.

Aðferð:

  • Kljúfið avakado.
  • Takið steininn úr.
  • Takið úr hýðinu.
    • Ég nota skeið .
  • Setjið í matvinnsluvél.
    • Vinnið saman þar til allt hefur blandast vel.
    • Þegar allt er að verða tilbúið kreistið þá úr sítrónunni.

Njótið töfranna.

 

 

.

Athugasemdir

athugasemdir

You Might Also Like