Bakstur, Glútenlaust

Glútenlausar vöfflur og kókosmjólk

17. July, 2016
DSC_0476

1998 var ég ráðin sem leiðbeinandi við Seljaskóla.  Auðvitað var ég örlítið kvíðin yfir þessari miklu ábyrgð sem ég tók að mér en ég ætlaði eftir fremsta megni að leggja mig fram. Að sjálfsögðu voru ekki allir ánægðir að fá leiðbeinanda í skólann, hvorki foreldrar né kennarar, sem er mjög skiljanlegt. En það átti eftir að breytast. Eftir nokkur ár sem leiðbeinandi fór ég í Kennó og lauk þar námi og var þar með orðin alvöru kennari í Seljaskóla.

Seljaskóli er mjög stór partur af mér enda búin að vera lengi við skólann. Þar var gott að vera og þar hef ég eignast marga af mínum bestu vinum. Þrátt fyrir að vera á góðum vinnustað ákvað ég í vor að skipta um starf. Það er jú þroskandi að takast á við nýja hluti.  Nú í haust byrja ég á Waldorf leikskólanum Sólstöfum. Það var erfið ákvörðun að skilja við alla góðu vinina í Seljaskóla en jafnframt spennandi að takast á við ný og krefjandi verkefni á nýjum vinnustað. Ég er búin að vera eins og ég kalla það í aðlögun á leikskólanum bæði til að kynnast börnunum og starfsfólkinu. Eins og við vitum öll þurfa börn að fá allar helstu staðreyndir á hreint. Ert þú amma? Var ég spurð, þau sáu það börnin að þessi kona gæti örugglega verið 100 ára. Ég gat svarað því játandi. Þar skoraði ég eitt stig. Önnur mikilvæg spurnig. Kannt þú að baka vöfflur. Já því gat ég líka svarað játandi og fékk þar með annað stig hjá börnunum. Nú halda börnin örugglega að eftir sumarfrí verði vöfflur alla daga í leikskólanum.

Ég er ein af slumpuppskriftavöfflufólkinu og þarf því nú að hafa blað og blýant við höndina, mæla nákvæmlega og skrifa niður uppskriftina.

Mér finnst mjög þægilegt að henda í vöfflur um helgar og einnig þegar við erum í hjólhýsinu. Um daginn þegar ég var að hræra í og baka vöfflur tók ég að því er ég hélt möndlumjólk, eins og ég geri venjulega. Hef greinilega ekki verið með gleraugun þegar ég var að versla. Þegar við vorum síðan að gæða okkur á vöfflunum fannst okkur öllum þetta vera enn betri vöfflur en venjulega. Sú í miðjunni var í kaffi og spurði: Hvað er í vöfflunum núna sem þú setur ekki venjulega, af hverju eru þær svona miklu betri núna? Hvað lést þú kókos í þær? spurði hún. Nei það hafði ég ekki gert, fannst það reyndar óskiljanlegt þetta kókosbragð. Fór og kíkti á fernuna og viti menn, þegar betur var að gáð hafði ég notað kókosmjólk. Nú er það frekar regla en undantekning að ég nota kókosmjólk í vöfflur. Oftast kaupi ég hana en þegar ég er í stuði útbý ég hana sjálf.

Auðvitað er ekki nausynlegt að nota glútenlaust mjöl og er því hægt að skipta því út fyrir t.d. spelt.

Glútenlausar vöfflur

Úr uppskriftinni fæ ég um það bil 12 vöfflur.

Innihald:

  • 3 bollar glútenlaust mjöl.
    • Ég nota mjölið frá Doves farm, plain white flour.
  • 2 msk. chia fræ.
  • 1 tsk. vínsteinsduft.
  • 1 tsk. xanthan gum.
    • Náttúrulegt þykkingarefni sem mér finnst nauðsynlegt að nota í glútenlausan bakstur.
  • 4 stk. egg.
  • ¾ bolli olía.
  • 1 tsk. vanilluduft.
    • Ég nota lífrænt.
  • ½ tsk. salt.
  • ½ lítri kókosmjólk.
    • Ég nota lífræna.

Aðferð:

Ég hræri í deigið í höndunum. Mér finnst best að nota sleikju við verkið.

  • Setjið öll þurrefnin í skál.
  • Bætið um það bil helmingnum af mjólkinni saman við.
  • Bætið  einu og einu eggi í og blandið vel saman.
  • Bætið að síðustu olíunni saman við.
  • Bakið.

 

 

DSC_0468

Stökkar og ótrúlega góðar.

 

DSC_0476

Ég ber vöfflurnar alltaf fram með sultu án viðbætts sykurs, ávöxtum, berjum, rjóma og stundum bræddu dökku súkkulaði. Mér finnst þetta fullkomin samsetning.

Kókosmjólk

Mjólkin geymist í 2 daga í ísskáp.

Það þarf að útbúa tvöfalda uppskrift í vöfflurnar.

DSC_0486

Innihald:

  • 1 dl. kókosmjöl.
    • Ég nota lífrænt.
  • 3 dl. kalt vatn.
  • 3 stk. döðlur.
    • Ég nota lífrænar.
  • 1 tsk. Vanilluduft.
    • Ég nota lífrænt.

Aðferð:

  • Setjið allt í blandara og vinnið vel saman.
  • Sumir vilja sigta blönduna en ég geri það aldrei.

 

DSC_0497

Kókosmjólkin tilbúin í flöskuna.

 

 

DSC_0504

Njótið.

 

Athugasemdir

athugasemdir

You Might Also Like