Súpur

Lambakjöts gúllassúpa

20. February, 2016
DSC_0539

Önnur móðursystir mín er algjör snillingur í gúllassúpugerð. Þegar hún bíður í afmæli eða aðrar samkomur er all oft boðið upp á gómsæta gúllassúpu. Súpan klikkar aldrei. Held bara að það sé sama hversu mikið hún gerir af súpu, alltaf er allt klárað úr pottunum.

Mig langaði að færa þessa góðu súpu heim í súpupottana mína og fékk því fyrir mörgum árum uppskriftina hjá henni og byrjaði að elda gúllassúpuna góðu. Aldrei fannst mér mín súpa verða eins góð og hjá frænku. Það vantaði alltaf eitthvað upp á. Hvað það var veit ég ekki. Hugsanlega bara andann úr súpupottum hennar.

Ég gafst þó ekki upp á gúllassúpugerðinni og smátt og smátt þróaði ég mína eigin gúllassúpu sem var byggð á uppskrift frænku. Ég veit satt að segja ekki hversu margar tilraunir ég gerði áður en við í fjölskyldunni urðum fullkomlega sátt, en þær voru æði margar.

Í liðinni viku var Sæsól Ylfa „norska” barnabarnið okkar í viku heimsókn hjá okkur ömmu og afa. Þessi duglega stelpa hafði sjálf safnað sér fyrir Íslandsferðinni og ferðaðist ein á milli. Þessa viku notaði Sæsól m.a. til að kynnast litlu nýju systkinabörnum sínum, sem nutu þess að fá dekur frá stóru frænku og að sjálfsögðu var hún líka dekruð af ömmu, afa og öllu frændfólkinu.

Þegar góða gesti ber að garði er ávallt reynt að hafa eitthvað sérstaklega gott að borða og var gúllassúpan því elduð. Það verður bara að segja eins og er að hún sló heldur betur í gegn hjá henni Sæsól okkar. Aldrei hafði hún smakkað eins góða súpu að eigin sögn. Þessa súpu vildi hún hafa í fermingarveislunni sinni í vor. Og þá í forrétt, aðalrétt og eftirrétt. Ekki veit ég hvernig foreldrar hennar taka því. En óneitanlega gladdi það ömmu hjartað.

Galdurinn við hversu góð þessi gúllassúpa er, tel ég vera m.a. vegna kraftsins úr beinum. Ekki hafa áhyggjur þó svo að þið náið ekki öllu kjötinu af beinunum, því við suðuna verður ekki kjötarða eftir á þeim.

DSC_0496

Gúllassúpa

Dugir fyrir sex fullorðna á mínu heimili.

Ef einhver afgangur verður af súpunni þá er hún líka ótrúlega góð daginn eftir.

Innihald:

 • 2 stk. lambaskankar.
  • Ca 900 gr með beini.
   • Má líka nota lærissneiðar.
 • 2 – 3 msk. ólívuolía.
 • 3 stk. laukar.
 • 1 stk. hvítlaukur.
 • 5 stk. kartöflur.
  • Má vera meira.
 • 5 stk. gulrætur.
 • 4 msk. paprikuduft.
  • Ég nota lífrænt.
 • 2 msk. grænmetiskraftur.
  • Ég nota lífrænan og glúteinlausan.
 • 2 stk. lárviðalauf.
 • 2 msk. tómatpurre.
  • Ég nota lífrænt.
 • 1 dós niðursoðnir tómatar.
  • Ég nota lífræna.
 • Salt og pipar.
 • 1 ½ l vatn.

Aðferð:

 • Skolið kjötið og þerrið með eldhússpappír.
 • Skerið kjötið utan af beinunum og síðan í passlega munnbita.
 • Setjið olíu í pott, bætið kjötinu og beinunum út í.
 • Stráið paprikuduftinu yfir.
 • Steikið við miðlungs hita, þar til kominn er fallegur litur á kjötið.
  • Veltið kjötinu öðru hverju.
   • Tekur ca. 5 mínútur.
  • Skerið laukana niður á meðan kjötið er að steikjast.
  • Takið kjötið úr pottinum og geymið.
  • Glærið (steikið) laukinn upp úr sömu olíunni.
   • Hugsanlega þarf að bæta 1 msk. af olíu við.
 •  Blandið tómatpurre saman við laukinn.
 • Bætið kjötinu og beinunum út í laukinn og blandið vel saman.
 • Blandið því næst niðursoðnu tómötunum og vatninu saman við.
 • Setjið restina af kryddunum í pottinn og sjóðið við vægan hita í eina og hálfa klukkustund.
 • Þegar 30 mínútur eru eftir af eldunartímanum bætið þá kartöflunum og gulrótunum saman við.
   • Súpan er tilbúin þegar grænmetið er soðið.
  • Takið beinin og lárviðalaufin úr súpunni og berið hana fram með sýrðum rjóma, gulrótarstrimlum og jafnvel góðu brauði.
DSC_0504

Stráið paprikuduftinu yfir kjötið og steikið í nokkrar mínútur.

 

DSC_0506

Steikið þar til kominn er fallegur litur á kjötið.

 

DSC_0512

Skerið laukana niður.

 

DSC_0522

Glærið laukinn í sama potti og sömu olíunni og kjötið var steikt í.

 

DSC_0524

Bætið tómatpurre út í laukinn og síðan kjötinu. Blandið vel saman.

 

DSC_0528

Bætið þá öllu nema grænmetinu saman við. Látið malla í eina klukkustund.

 

DSC_0536

Yddið gulrót og setjið ofan á súpuna.

 

DSC_0539

Berið fram með sýrðum rjóma og gulrótarstrimlum.

Njótið.

 

Athugasemdir

athugasemdir

You Might Also Like