Bakstur, Ýmislegt

Vatnsdeigsbollur með margskonar fyllingum

11. February, 2015

DSC_0025

Þegar ég var lítil stelpa hlakkaði ég ótrúlega mikið til bolludagsins. Ekki bara yfir öllum bollunum sem ég gæti gætt mér á. Nei. Það var vegna spenningsins að læðast eldsnemma að morgni inn í herbergi til mömmu og pabba, án þess að vekja og bolla þau. Við Snorri bróðir vorum mjög samtaka á þessum degi. Við stóðum sitthvorumegin við rúmið þeirra með fallega bolluvendi í hendi, alveg að springa úr hlátri og bolluðum og bolluðum þar til þau vöknuðu. Þegar mamma og pabbi loks vöknuðu, spurðu þau okkur hversu margar bollur við þyrftum að borða. Auðvitað vissum við það upp á hár. Um leið og við bolluðum töldu við að sjálfsögðu hversu mörg bollubank þau fengu. Því fyrir hvert bollubank átti maður að fá eina bollu.Bolla 31

Litla stelpan varð fullorðin og eignaðist sín eigin börn. Fyrir bolludaginn byggði hún upp sömu spennuna hjá þeim fyrir deginum. Á bolludagsmorgun læddust börnin inn í herbergi til mömmu og pabba og bolluðu þau og bolluðu. Fyrir hvert bollubank fengu börnin eina bollu sem mamman hafði bakað handa þeim.

Nú eru þessi börn fullorðin og eiga sín eigin börn, sem læðast inn í herbergi til mömmu sinnar og pabba og bolla þau og bolla.

Mamman og nú amman er enn spennt fyrir bolludeginum. Ekki vegna þess að hún eigi von á litlum gestum snemma morguns sem bolla ömmuna og afann. Heldur vegna þess að allt þetta fólk kemur í bollukaffi á Njálsgötuna.

Gestir a bolludaginn

Ég er búin að baka eftir þessari vatnsdeigsbollu uppskrift í ofboðslega mörg ár. Í fyrstu var smjörlíki og hveiti í bollunum mínum. En fyrir mörgum árum skipti ég því út fyrir smjör og spelt.

Þegar ég er með bollukaffi finnst mér  skemmtilegt að hafa margskonar fyllingar sem fólkið mitt getur valið um. Við borðið myndast oft líflegar samræður um bestu samsetninguna. Og þá fá líka allir sína uppáhaldsfyllingu.

Vatnsdeigsbollur uppskrift

Ég fæ 10 stykki úr uppskriftinni.

Stillið ofninn á 200°C á meðan verið er að útbúa deigið.

Innihald i bollur

Innihald:

  • 80 g smjör.
  • 2 dl vatn.
  • 100 g fínt spelt.
  • 3 stk hamingju egg.
  • ½ tsk salt.
    • Ég notaði maldon.
  • 56 % suðusúkkulaði ofan á bollurnar.

Aðferð:

  • Smjör og vatn sett í pott.
  • Hitað þar til vatnið fer að sjóða og smjörið bráðið.
  • Speltinu bætt rólega saman við.
  • Hrært um leið með sleif.
  • Þegar speltið er komið í pottinn er komin deigbolla.
  • Setjið hana í hrærivélaskálina og saltið.
  • Rétt látið  kólna. 

Ég lét deigið kólna rétt á meðan ég þvoði pottinn, gekk frá honum og þeytti saman eggin.

  • Brjótið eggin í skál.
  • Þeytið þau saman með gaffli.
  • Hellið eggjunum smátt og smátt út í deigið og hrærið um leið í hrærivélinni.
    • Hafið stillt á miðlungs hraða.
  • Hrærið þar til allt hefur blandast vel saman.
    • Tekur í mesta lagi rúma mínútu.
  • Setjið deigið með matskeið á ofnplötu.
    •  Ég er alltaf með margnota pappír á ofnplötunni hjá mér, auðvitað er hægt að nota smjörpappír.
  • Bakið við 200°C í 25 mínútur.
    • Ég bakaði á blæstri.

Nú kemur það mikilvægasta. ALLS EKKI OPNA OFNINN Á MEÐAN BOLLURNAR ERU AÐ BAKAST. Ef það er gert falla þær saman.

bollur i ofni

Ofan á bollurnar:

  • Bræðið súkkulaðið yfir vatnsbaði  og smyrjið á bollurnar.

Að bræða yfir vatnsbaði:  Súkkulaði sett í skál sem þolir að fara í heitt vatn. Skálin fer ofan í pott sem fylltur er upp af 1/4 af vatni og brætt saman við lágan hita. Hrærið í súkkulaðinu öðru hverju. Það verður að gæta þess að ekki fari vatn í skálina þegar vatnið fer að sjóða. Ef það gerist fer súkkulaðið í kekki. Ónýtt!

Á milli í bollurnar

Bláberja sósa

Innihald::

  • 150 g bláber.
    • Ég notaði frosin ber.
  • 50 g pálmasykur.
  • 1 msk vatn.

Aðferð:

  • Setjið allt í pott.
  • Sjóðið við lágan hita í 20 mínútur.
    • Hjá mér eru sex hitastillingar og var ég með stillt á tvo.
  • Hrærið í öðru hverju.

Kasjúhneturjómi

Innihald:

  • 1 bolli kasjúhnetur.
    • Ég notaði lífrænar.
  • 1 bolli vatn.
  • 3 stk lífrænar döðlur.

Aðferð:

  • Leggið kasjuhneturnar í bleyti í  skál ca 30 mínútur.
    • Vatnið þarf að ná yfir hneturnar.
  • Hellið vatninu af.
  • Setjið kasjuhneturnar í blandara.
  • Bætið við vatni og döðlunum.
  • Maukið vel saman.
  • Rjóminn þarf að vera kekkjalaus.

Ef þið viljið hafa rjómann þynnri bætið þá örlitlu vatni við. Ef þið viljið hafa hann sætari bætið þá einni döðlu í viðbót.

 Mascarpone lakkrískrem

Notið annað hvort hrærivél eða matvinnsluvél.

  • ½ askja mascarpone ostur.
  • 2 msk. sýrður rjómi.
  • 4  msk. rjómi.
  • 1 tsk Johan Bulow lakkrísduft.
    • Fæst í Epal.

Aðferð:

  • Allt sett í skálina og hrært vel saman.
    • þarf að vera kekkjalaust.
    • Ef þið viljið hafa kremið þynnra bætið 1 msk. rjóma út í.

Mér finnst ómissandi að hafa ferska ávexti inn í bollunum. Að þessu sinni  brytjaði ég niður: banana, vínber og jarðarber og setti hverja tegund fyrir sig í skál.

Að sjálfsögðu má ekki sleppa því að hafa þeyttan rjóma, góða sultu og ferska ávexti á bollunum.

Njótið dagsins bolla, bolla, bolla!

 

  

Athugasemdir

athugasemdir

You Might Also Like