Álegg, Glútenlaust, Ýmislegt

Hnetumix og möndlusmjör

2. July, 2015
DSC_0754

Ég var spurð að því um daginn, hvað ég gerði við allar þessar hnetur og möndlur sem ég keypti í stórum stíl? Rúnar maðurinn minn segir stundum að það sé eins gott að við séum ekki með hnetuofnæmi. Því hvað borðuðum við þá? Ég ætla að deila með ykkur tveimur hnetu og möndlu uppskriftum. Ætlaði að fara að segja sem eru í uppáhaldi. Hætti við það, vegna þess að allt sem ég set inn er í uppáhaldi hjá okkur hjónum.

Þessar tvær eru svona ekta til að taka með sér í ferðalagið, en eiga auðvitað alltaf við.

 Nú þegar svo margir eru á ferð og flugi út um borg og bý er bráðnauðsynlegt að lauma í vasa sinn poka af gómsætu hnetumixi. Ef gott mix er í vasanum, þarf ekki að stoppa í sjoppu á ferðalögum. Þú getur bara valið fallegan stað á ferð þinni, sest út í móa og maulað mixið þitt. Mixið hefur komið sér mjög vel hjá mér, bæði heima og heiman, þegar skyndileg löngun grípur um sig í eitthvað gott að maula.

DSC_0706

Ristað hnetumix

Frekar stór skammtur.

Hvorki hlutföllin né innihaldið eru heilög. En kókosolían og kókosflögurna gera útslagið.

Innihald:

 • 1 msk. kókosolía.
  • Byggi á eigin reynslu ekki setja meiri kókosolíu.
 • 1 bolli möndlur.
 • 1 bolli kasjúhnetur.
 • 1 bolli pekanhnetur.
 • ¼ bolli sólblómafræ.
 • ½ bolli kókosflögur.
 • ¼ bolli brómber.

DSC_0713

Aðferð:

 • Setjið kókosolíu, möndlur, hnetur og sólblómafræ á pönnu.
 • Stillið á miðlungs hita og byrjið að rista.
 • Standið yfir pönnunni allan tímann og hreyfið við mixinu.
 • Þegar möndlurnar og hneturnar eru farnar að taka lit bætið þá kókosflögunum út í.
 • Ristið áfram þar til kókosflögurnar eru farnar að taka lit.
 • Slökkvið undir hellunni og bætið brómberjunum saman við.
 • Setjið í smart krukku 😉
 • Setjið mix í poka og takið með ykkur hvert sem ferðinni er heitið.
DSC_0721

Ristað mix.

 

DSC_0747

Ég hlakka til að vakna alla sunnudagsmorgna. Hættu nú gæti einhver sagt. Ástæða tilhlökkunarinnar er morgunmaturinn. Þá fæ ég mér ristað brauð með möndlu og kasjúhnetusmjöri, sykurlausri berjasultu og banana. Bara að það væri alltaf sunnudagur. Þetta er dásamlegur morgunmatur. Hjá Rúnari er greinilega mjög oft sunnudagur, á hans hrökkbrauði er all oft möndlu og kasjúhnetusmjör. Þegar við útbúum okkur nesti fyrir ferðalög er alltaf a.m.k. ein  samloka í nestisboxinu okkar með  möndlu og kasjúhnetusmjöri.

Það er líka algjört sælgæti að skera epli niður í sneiðar og smyrja það með möndlu og kasjúhnetusmjörinu og setja smá sykurlausa sultu ofan á.

Möndlu og kasjúhnetusmjör

Frekar stór skammtur, dugar í viku á mínu heimili. 

Við erum tvö sem borðum það.

DSC_0728

Innihald:

 • 2 bollar möndlur með hýði.
 • ½ bolli kasjúhnetur.
 • 3 stk lífrænar döðlur.
 • 1/2 dl olía.
 • Ca ½ tsk salt.

Það tekur 15 – 20 mínútur að vinna möndlurnar og hneturnar saman í matvinnsluvél.

Gott að stoppa vélina inn á milli og skafa það sem sest á barmana og losa það sem sest á botninn.

Aðferð:

 • Setjið möndlurnar og kasjúhneturnar í matvinnsluvél.
 • Vinnið mjög vel saman.
  • Tekur 15 – 20 mínútur í minni matvinnsluvél.
 • Bætið  olíunni smátt og smátt við.
  • Vélinn er enn að vinna.
 • Bætið döðlunum út í og vinnið saman þar til þær hafa blandast vel saman.
 • Saltið.
 • Setjið í krukku og geymið í ískáp.
 • Ég veit að möndlusmjörið geymist í 2 vikur í ískáp.
  • Hef aldrei náð að geyma það lengur.
   • Er alltaf búið.
DSC_0735

Búið að vinna saman í 15 mínútur.

DSC_0744

Olían og döðlurnar komnar saman við.

Okkur hjónum finnst best að hafa þykktina á möndlusmjörinu þannig að auðvelt sé að smyrja því. Ef þið viljið hafa það þykkara hafið þá minni olíu. Möndlusmjörið fer að þykkna eftir nokkra daga í ískápnum, bætið þá aðeins olíu í krukkuna og hrærið saman við smjörið.

Möndlu og kasjúhnetusmjörið passar líka mjög vel með hrökkbrauðinu sem ég var með um daginn.

DSC_0749

Njótið.

 

 

Athugasemdir

athugasemdir

You Might Also Like